Stjórn Festu lífeyrissjóðs hefur samþykkt ársreikning sjóðsins fyrir árið 2010. Nafnávöxtun tryggingadeildar sjóðsins var jákvæð um 4,8%, en að teknu tilliti til verðbólgu var raunávöxtun 2,2%. Iðgjöld síðasta árs námu tæplega 3,6 milljörðum króna, en það er tæplega 1,7% lækkun frá fyrra ári. Verður það að teljast vel viðunandi í því erfiða atvinnuástandi sem nú ríkir. Til sjóðsins greiddu reglubundið um tíu þúsund sjóðfélagar, en yfir árið bárust iðgjöld frá tæplega fimmtán þúsund sjóðfélögum og mótframlag frá rúmlega átján hundruð launagreiðendum.
Lífeyrisgreiðslur ársins 2010 voru rúmlega 1,8 milljarðar króna til rúmlega fimm þúsund lífeyrisþega og hækkuðu þær um 4,4% frá fyrra ári.
Rekstur séreignardeildar sjóðsins gekk vel á árinu, en eignir hennar eru allar virtar á markaðsgengi. Nafnávöxtun séreignardeildar var tæp 11,4% sem jafngildir 8,5% raunávöxtun.
Rekstrarkostnaður sjóðsins sem hlutfall af eignum var 0,12%. Þetta hlutfall hefur haldist óbreytt milli ára undanfarin þrjú ár, en hafa ber í huga að uppsöfnuð verðbólga þessara ára er tæplega 30%.
Tryggingafræðileg staða sjóðsins í árslok 2010, var neikvæð um 7,5%. Staðan var neikvæð um 9,9% árið á undan og hefur því batnað nokkuð á milli ára.
Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris var í lok árs 2010 rúmir 63,2 milljarðar og jukust eignir sjóðsins um rúmlega 4,8 milljarða króna eða um 8,3%. Sjá hér auglýsingu frá Festu.