Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp þann 5. janúar sl., var felld úr gildi ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að Ingólfur Guðmundsson uppfyllti ekki hæfisskilyrði til að gegna starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Meðal annars taldi dómurinn að meinbugir væru á málsmeðferð þar sem hann fékk ekki að fullu notið andmælaréttar. Ingólfur var stjórnarformaður Íslenska lífeyrissjóðsins á árunum 2007 og 2008 en Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við fjárfestingar sjóðsins á þeim grundvelli að þær væru ekki til samræmis við lögbundnar heimildir. Á þeim forsendum taldi FME Ingólf ekki vera hæfan til að gegna starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur ekki tekið ákvörðun um hvort þessum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verður áfrýjað til Hæstaréttar.