Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel (ESA) hefur úrskurðað að starfsskilyrði Íbúðalánasjóðs brjóti ekki gegn ákvæðum EES-samningsins. Þá felur ákvörðunin í sér að stofnunin samþykkir hækkun hámarksláns Íbúðalánasjóðs í 90% af kaupverði íbúðar.
Ríkisstjórnin ákvað í nóvember 2003 að tilkynna fyrirhugaða hækkun hámarksláns til ESA til að taka af vafa um að hún stæðist ákvæði EES-samningsins. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja kvörtuðu yfir starfsskilyrðum Íbúðalánasjóðs til ESA í apríl.
ESA kemst að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag íbúðalána Íbúðalánasjóðs (ÍLS) feli í sér almannaþjónustu sem sé heimil samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. Sérstaklega er tekið fram að þetta eigi jafnt við um almenn lán ÍLS og viðbótarlán til tekjuminni kaupenda, enda ljóst að ekki verði með öðrum hætti tryggt framboð veðlána til kaupa á íbúðarhúsnæði með sömu kjörum um allt land. Endurgjald það sem ÍLS fær fyrir þjónustuna sé hóflegt og fyrirkomulagið skaði ekki hagsmuni annara aðildarríkja.
Íslenska ríkið hefði átt að tilkynna til stofnunarinnar stofnun ÍLS árið 1998 og þar sem það var ekki gert sé formlega séð um ólögmæta ríkisaðstoð að ræða. Þessi formgalli hafi hins vegar engin áhrif á lögmæti húsnæðiskerfisins.