Er maðkur í mysunni?

Seðlabankinn hefur í bréfi til Landssamtaka lífeyrissjóða kveðið á um að óheimilt sé með öllu að stofna til nýrra samninga eftir 28. nóvember 2008 um viðbótarlífeyrissparnað í erlendum eignum, líkt og tíðkast hefur m.a. hjá Sparnaði/Bayern líf og hjá Allianz á Íslandi. Þá tekur Seðlabankinn fram að engar undanþágur hafa verið heimilaðar gagnvart nýjum samningum. Samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál 29. apríl 2010 er fjárfesting í framseljanlegum fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri óheimil og almennt er meginreglan sú að kaup á erlendum gjaldeyri til fjárfestinga erlendis eru ekki heimil.

Í framhaldi af þessum reglum beindu Landssamtök lífeyrissjóða eftirtöldum spurningum til Seðlabanka Íslands: 

Hafa Allianz á Íslandi og Sparnaður/Bayern líf og etv. aðrir heimild til að stofna til nýrra samninga um reglulegan sparnað í erlendum gjaldeyri í formi söfnunarlíftrygginga eftir upphaflega gildistöku reglna um gjaldeyrishöft. Ef svo, á hverju grundvallast sú heimild?

Hafa framangreindir aðilar eða aðrir heimild til að breyta eldri samningum um söfnunarlíftryggingar með sparnaði í erlendum gjaldeyri og hækka þann hluta iðgjaldsins sem fer til reglulegs sparnaðar
eftir upphaflega gildistöku framangreindra reglna?  Ef svo, á hverju grundvallast sú heimild?

Hafa framangreindir aðilar heimild til að kaupa gjaldeyri fyrir ISK 350 þúsund mánaðarlega fyrir hvern einstakling sem gerir eða hefur gert slíkan samning um reglulegan sparnað í formi söfnunarlíftryggingar? 

Í bréfi Landssamtaka lífeyrissjóða til Seðlabankans segir einnig m.a.:

Framangreind regla um gjaldeyrishöft  hefur verið talin gilda fyrir lífeyrissjóði sem aðra, þ.m.t. vegna samninga um viðbótarlífeyrissparnað hvort sem er í formi söfnunarlíftryggingar eða á annan hátt. 

Fram hefur komið að Seðlabankinn hefur túlkað framangreindar reglur að þessu leyti þannig hvað varðar söfnunarlíftryggingar að þeir aðilar sem hafa gert samning um reglulegan sparnað í því formi fyrir upphaflega gildistöku reglnanna um gjaldeyrishöft geti áfram efnt samningsbundnar skyldur sínar samkvæmt þeim samningum og keypt gjaldeyri til þess.  Þeim sé hins vegar ekki heimilt að hækka fjárhæðina sem fer til reglulegs sparnaðar samkvæmt gildandi samningi. 

Jafnframt sé þeim aðilum sem bjóða slíka samninga óheimilt eftir upphaflega gildistöku nýrra reglna um gjaldeyrismál að stofna til nýrra samninga um söfnunarlíftryggingar þar sem meginmarkmiðið er reglulegur sparnaður í erlendum gjaldmiðli.

Nú horfir svo við að a.m.k. tveir aðilar sem bjóða samninga um reglulegan sparnað í formi söfnunarlíftrygginga, Allianz á Íslandi og Sparnaður/Bayern líf, virðast þrátt fyrir framangreindar reglur geta boðið áfram stofnun nýrra samninga og keypt gjaldeyri reglulega til fjárfestinga erlendis. 

Innlendir lífeyrissjóðir, m.a. sjóðir sem bjóða reglulegan sparnað í formi söfnunarlíftryggingar, eru hins vegar ekki taldir geta boðið slíka samninga þar sem fjárfest væri í eignum í erlendum gjaldeyri.  Vegna þessa aðstöðumunar hafa framangreindir tveir aðilar verið með sérstakt átak í aukningu/sölu samninga um viðbótarlífeyrissparnað í erlendum gjaldeyri í formi söfnunarlíftrygginga.  Hefur sú herferð leitt til þess að mikill fjöldi einstaklinga hefur sagt upp samningum hjá öðrum aðilum sem heimild hafa samkvæmt lögum til að bjóða samninga um viðbótarlífeyrissparnað og jafnframt óskað eftir flutningi inneignar sinnar hjá þeim yfir til framangreindra aðila.  Virðist sem þeir séu þannig að stofna til nýrra samninga og jafnframt að breyta uppsöfnuðum sparnaði í íslenskum krónum yfir í erlendan gjaldeyri með kaupum á gjaldeyri hér til þess. 

Við könnun kom fram hjá öðrum þessara aðila að hann var tilbúinn til að taka að sér séreignarsparnað fyrirspyrjanda f.h. hins erlenda samstarfsaðila.  Um væri að ræða eina sparnaðarleið sem gilti fyrir alla og samanstæði af evrópskum ríkisskuldabréfum að 70-90% og eftirstöðvar í erlendum hlutabréfum, en þar sem íslenski markaðurinn væri svo lítill væri sparnaðurinn allur vistaður hjá erlenda samstarfsaðilanum í evrum.  Einnig var tekið fram að fyrirspyrjandi gæti flutt þann séreignarsparnað sem hann ætti hjá innlendum vörsluaðila yfir til þessa aðila og að hann gæti fært sem næmi 350 þúsund krónum í gjaldeyri mánaðarlega fyrir hvern einstakling sem gerði slíkan samning.

Sé það rétt sem hér hefur verið rakið um samninga framangreindra tveggja aðila virðist alveg ljóst að gildandi reglur um gjaldeyrismál eru brotnar eða farið er á svig við þær með einhverjum hætti. Það fær til að mynda ekki staðist að mati Landssamtaka lífeyrissjóða að litið sé á iðgjaldið til viðbótarlífeyrissparnaðar sem haldið er eftir af launum viðkomandi  reglulega sem iðgjald til kaupa á tryggingu.  Ennfremur  er með slíku brotið gegn meginreglum laga um jafnræði, þar sem íslenskum aðilum sem bjóða samninga um viðbótarlífeyrissparnað er ekki veitt heimild til kaupa á gjaldeyri til að fjárfesta alveg sambærilegan sparnað í erlendum eignum,  jafnframt sem slíkt bryti gegn ákvæðum samkeppnislaga að mati Landssamtaka lífeyrissjóða.

Í fyrrgreindu bréfi staðfestir Seðlabankinn þá afstöðu sína að ekki sé heimilt að bjóða nýja samninga um viðbótarlífeyrissparnað með fjárfestingu í erlendum gjaldeyri né heldur að gera megi breytingar á eldri samningum til hækkunar.  Þannig er skilningur Landssamtaka lífeyrissjóða staðfestur.

Seðlabankinn er nú með til rannsóknar gjaldeyriskaup fyrrgreindra aðila og hvort átt hafi sér stað brot á reglum um gjaldeyrisviðskipti. Þó rétt sé að spyrja að leikslokum eru samt sem áður sterkar líkur á því að maðkur sé í mysunni.