Enn ein atlaga að lífeyrissjóðunum.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú sett fram hugmyndir um að lífeyrissjóðirnir taki þátt í niðurfærslunni og þá ekki einvörðungu vegna sjóðfélagalána heldur einnig vegna íbúðalánabréfa sem sjóðirnir eiga. Það er ljóst að sérhver niðurfærsla á þessum eignaliðum sjóðanna leiðir til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga.
Þetta kemur fram að athygliverðri grein Bjarna Þórðarsonar, tryggingastærðfæðings í Morgunblaðinu.


Grein Bjarna birtist hér í heild sinni: 

Enn ein atlaga að lífeyrissjóðunum.

Hvað gengur mönnum til?

 

Ýmsir setja nú fram kröfu um að öll íbúðalán verði færð niður um tiltekinn hundraðshluta án tillits til aðstæðna skuldara. Steingrímur J. verst enn hetjulega og vonandi tekst honum að verja vígið. Það ætti ekki að vefjast fyrir neinum að stór hópur þessara skuldara hefur ekki nokkra þörf fyrir niðurfærslu og getur fyllilega staðið við þær skuldbindingar sem þeir hafa tekið á sig. Hins vegar eru þeir margir sem munu eiga í erfiðleikum með að standa í skilum og flöt niðurfærsla skulda mun ekki koma þeim öllum úr klípunni. Hversu margir eru þeir sem tóku íbúðarlán fyrir 2004 og eru í vanda? Það er nefnilega athyglisvert að vísitala íbúðarverðs hefur hækkað meir en vísitala neysluverðs frá janúar 2004 til ágúst 2010. Þeir sem krefjast flatrar lækkunar íbúðalánanna verða að færa skotheld rök fyrir nauðsyn þess og sú nauðsyn sé svo rík að skerða þurfi lífeyrisréttindi stórs hóps sjóðfélaga og leggja aukna skatta á alla skattþegna landsins. Við  erum að tala um reikning upp á 1 milljón króna á hvern mann á starfsaldri! Ég ítreka: Hver eru rökin? Ég spyr líka: Er ekki ráð að meta það hvernig unnt sé að hámarka nýtingu þess fjár sem lagt verður fram til að aðstoða skuldara í vanda? Þetta er jú grundvallarregla í rekstri.

 

Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú sett fram hugmyndir um að lífeyrissjóðirnir taki þátt í niðurfærslunni og þá ekki einvörðungu vegna sjóðfélagalána heldur einnig vegna íbúðalánabréfa sem sjóðirnir eiga. Það er ljóst að sérhver niðurfærsla á þessum eignaliðum sjóðanna leiðir til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga þeirra og það í kjölfarið á verulegum skerðingum vegna hrunsins, mismiklum þó. Hafa stjórnir sjóðanna heimildir til slíkra niðurfærslna sjóðfélagalána samkvæmt samþykktum sjóðanna? Getur ríkisvaldið skikkað eigendur íbúðabréfa til þess að þola niðurfærslu á verðmæti þeirra? Getur ríkisvaldið breytt grundvelli vísitölu neysluverðs til verðtryggingar til þess að þóknast kröfugerðarmönnunum? Að mínu mati kemur það ekki til greina. Ímynd fjármálageirans og eftirlitsstofnana hans hefur skaddast nóg í augum umheimsins með hruninu sem og nýgengnum dómum að ekki er á bætandi! Eigendur íbúðabréfa munu vafalaust leita réttar sínar fyrir dómstólum.  Ekki má gleyma því í þessu sambandi að nokkrir sjóðir njóta ábyrgðar ríkis og sveitarfélaga og munu því ekki þurfa að skerða réttindi en munu sækja fé til að mæta niðurfærslum í vasa skattgreiðenda. Það sitja ekki allir við sama borð. Ég tek undir orð tveggja hagfræðinga sem hafa lýst þessar hugmyndir fráleitar og galnar.

 

Bjarni Þórðarson
tryggingastærðfræðingur