Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað löggiltan endurskoðanda af ákæru fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ársreikninga, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um endurskoðendur, með því að hafa á árunum 1993 til 2001 vanrækt skyldur sínar sem löggiltur endurskoðandi ársreikninga Tryggingasjóðs lækna.
Tryggingasjóður lækna krafðist þess að endurskoðandinn yrði dæmdur til að greiða sjóðnum 47,5 milljónir króna auk vaxta en þeirri kröfu var vísað frá dómi.
Fyrir nokkru var fyrrverandi framkvæmdastjóri Tryggingasjóðs lækna dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir 75 milljóna króna fjárdrátt á árunum 1992 til 1999 og bókhaldsbrot á árunum 1992 til 2001. Endurskoðandanum var gefið að sök með því að hafa eftir endurskoðun á ársreikningum sjóðsins fyrir árin 1992 til 2000, áritað ársreikningana án fyrirvara, og með yfirlýsingu um að þeir gæfu glögga mynd af efnahag og breytingu á eign, án þess að hafa við endurskoðunarvinnuna aflað fullnægjandi gagna til að byggja slíkt álit á og ekki kannað á fullnægjandi hátt þau gögn sem fyrir lágu, og þannig ekki hagað endurskoðunarvinnu sinni í samræmi við góða endurskoðunarvenju.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir, að það sé mat dómsins að eins og ákæra sé úr garði gerð og rannsókn og sönnunarfærslu sé háttað í málinu, hafi ákæruvaldi ekki tekist að færa sönnur á sök ákærða. Er endurskoðandinn því sýknaður og bótakröfu Tryggingasjóðs lækna vísað frá dómi. Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.