Eldri borgarar mótmæla skatti á lífeyrissjóðina

Stjórn Landssambands eldri borgara hefur sent frá sér ályktun þar sem mótmælt er harðlega þeim áformum ríkisstjórnar að skattleggja lífeyrissjóðina um 1, 7 milljarða króna. „Þetta er bein aðför að eldri borgurum og öryrkjum þar sem það hlýtur að skerða kjör þeirra þegar ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna er skert sem þessu nemur. Hér er um eignaupptöku lífeyrisþega að ræða því lífeyrissjóðir eiga ekki eignir, heldur safna þeir upp réttindum fyrir lífeyrisþega til greiðslu síðar," segir í ályktuninni. Skorar stjórn landssambandsins á Alþingi að samþykkja ekki þetta ákvæði í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem nú er til meðferðar í þinginu.