Ekki hlutverk lífeyrissjóða að eiga og reka hjúkrunarheimili.

Það er alls ekki hlutverk lífeyrissjóða að stunda aðra starfsemi en að taka á móti iðgjöldum sjóðfélaga, sjá um ávöxtun þeirra og greiða út lífeyri. Í lífeyrissjóðalögunum er skýrt kveðið á um starfsemi sjóðanna  og er enginn ágreiningur milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um hlutverk þeirra. Lífeyrissjóðirnir eru hins vegar reiðubúnir að lána ríki og bæjarfélögum fjármagn til að reisa hjúkrunarheimili enda sér það gert á  eðlilegum forsendum, svo sem að greiddir séu  markaðsvextir af lánunum. Landssamtök lífeyrissjóða gera athugasemdir við túlkun á niðurstöðum Gallupkönnunar um hvort landsmenn séu hlynntir því að lífeyrissjóðirnir eigi að byggja og reka húsnæði fyrir eldri borgara.

Að frumkvæði Helga Vilhjálmssonar, sem kenndur er við Góu, hefur IMG Gallup gert skoðunarkönnun á því hvort lífeyrissjóðir eigi að byggja og reka húsnæði fyrir eldri borgara. Því er haldið fram að samkvæmt könnuninni vilji 76,6%% þeirra sem sögðust vera hlynntir aðkomu lífeyrissjóðanna að byggingu og rekstri húsnæði fyrir eldri borgara,  einnig vera hlynntir slíku, þó það rýrði höfuðstól sjóðanna.

Vert er að geta þess að svarhlutfall var mjög lágt í þessari könnun eða aðeins 59%. Upphaflegt úrtak voru 1400 manns, en ekki náðist í nema 1194. Af þeim, neituðu 392 að svara eða rúmlega 30%. 

Í síðustu spurningunni  frá Gallup er þannig spurt: "Ertu hlynnt(ur) því þó að það geti haft kostnað í för með sér fyrir sjóðinn og rýrt höfuðstól hans?" Spurningin er illa orðuð því nær hefði verið að spyrja beint hvort landsmenn væru hlynntir því að lífeyrir þeirra skertist ef sjóðirnir tækju að sér að byggja og reka hjúkrunarheimili. Sagt er að 76,6% svarenda hafi svarað þessari spurningu játandi. Hér er farið frjálslega með túlkun niðurstaðna. Alls svörðuðu 350 manns þessari spurningu játandi, en alls náðist í 1194, manns, eins og áður segir. Nær hefði verið að draga það skýrt fram að aðeins um 30% af þeim sem náðist í hafi svarað þessari spurningu játandi. Að vísu gleymdist að spyrja 277, þannig að um 38%  hafa þá svarað spurningunni. Rúmlega 60% svara spurningunni neitandi eða neita að svara. 

Þá vekur athygli að samkvæmt könnunni vilja aðeins 30,5% að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í skulda-  eða hlutabréfum og sýnir það svar því miður einnig ótvírætt, hversu marklaus þessi könnun er.

Burtséð frá þessari skoðunarkönnun er hitt alveg krystaltært: Lífeyrissjóðirnir hafa engar heimildir í lögum að stunda aðra starfsemi, en sem beinlínis fellur undir starfsemi þeirra, þ.e. að taka á móti iðgjöldum, sjá um ávöxtun þeirra og greiða lífeyri. Meðal stjórnvalda og bæjarfélaga virðist hafa skapast mikill vilji til að gera stórátak  varðandi byggingu hjúkrunarrýma og þjónustuíbúða fyrir aldraða.   Lífeyrissjóðirnir styðja það átak, en það verður að vera gert á réttum forsendum. Hugmynd þess efnis að lífeyrissjóðirnir taki að sér að byggja og reka hjúkrunarheimili, þannig að það hafi í för með sér skerðingu á lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga til frambúðar, er andvana fædd og kemur ekki til álita.