Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands áætlar bankinn að eignir lífeyrissjóðanna hafi numið 804.571 m.kr. um síðustu áramót og hafi því hækkað um 18,5% á einu ári. Þessi áætlun er byggð á úrtaki 25 stærstu lífeyrissjóðanna með yfir 94% af hreinni eign allar sjóða í landinu. Þessa hækkun má m.a rekja til þess að raunávöxtun lífeyrissjóðanna var mjög góð í fyrra eða yfir 10% að meðaltali.
Lífeyrissjóðirnir fjárfestu umtalsvert erlendis á síðasta ári, en erlendar eignir námu alls 156.069 m.kr. eða 19,4% af heildareigninni í árslok 2003 og höfðu hækkað um 53.148 m.kr. eða um 51.6 % frá árslokum 2002, þegar erlendu eignirnar námu 102.922 m.kr. eða um 15,2% af heildareign sjóðanna. Þessa hækkun má einnig rekja til þess að erlendir hlutabréfamarkaðir hækkuðu mikið í fyrra.
Lán til sjóðfélaga námu alls 90.702 m.kr. í árslok 2003 og höfðu hækkað um tæp 9% á árinu. Um töluverða lækkun er að ræða miðað við árið 2002, þegar sjóðfélaga-lánin hækkuðu um 17%.
Eignir lífeyrissjóðanna, sem beinlínis má tengja við íbúðalán námu alls 266.775 m.kr í árslok 2003. Auk sjóðfélagalána munar þar mestu um eignir sjóðanna í húsbréfum og húsnæðibréfum Íbúðalánasjóðs. Þannig er ljóst að lífeyrissjóðirnir eru langstærstu lánveitendur á íbúðamarkaði.
Eignir lífeyrissjóðanna í reiðufé í bönkum námu alls 18.569 m.kr. eða um 2,3% af heildareignum sjóðanna, sem er svipað hlutfall og árið áður.