Samkvæmt upplýsingum frá tölfræðisviði Seðlabanka Íslands námu eignir lífeyrissjóðanna 661 milljarðar króna í lok ágúst s.l., sem er hækkun um 2,5% miðað við eignir sjóðanna í árslok 2001. Erlendar eignir sjóðanna halda áfram að lækka sem hlutfall af heildareignum.
Erlendar eignir lífeyrissjóðanna námu alls 116 milljörðum króna í lok ágúst s.l. sem var um 17,6% af heildareignunum. Erlendu eignirnar námu alls 135 milljörðum króna í lok síðasta árs sem var um 20,9% af heildareignunum og í árslok 2000 námu erlendu eignir sjóðanna 128 ma.kr. eða um 22,6% af heildareignunum.
Heildareignir lífeyrissjóðanna námu um 661 ma.kr. í júnílok s.l. en voru 645 ma.kr. um síðustu áramót. Aukingin nemur um 2,5% eða rúmum 16 milljörðum króna.
Heildareignir sjóðanna voru hins vegar um 566 ma.kr. í árslok 2000 og hafa þær því aukist um tæplega 95 milljarða miðað við lok ágúst s.l. eða um 16,7% .
Lán til sjóðfélaga námu alls rúmlega 80 ma.kr. og höfðu aukist um rúma 9 milljarða króna frá síðustu áramótum eða um 12,8%. Frá árslokum 2000 hafa sjóðfélagalánin hækkað um tæplega 25 milljarða króna eða um 44%.