Íslenska lífeyriskerfið áfram í úrvalsdeild

Jón Ólafur endurkjörinn sem formaður 

Jón Ólafur Halldórsson, Lífeyrissjóði verzlunarmanna, var endurkjörinn formaður Landssamtaka lífeyrissjóða – LL þegar nýkjörnir stjórnarmenn skiptu með sér verkum að loknum aðalfundi LL 28. maí. Harpa Jónsdóttir LSR var kjörinn varaformaður í stað Gylfa Jónassonar, Festu lífeyrissjóði, sem átti eitt ár eftir að kjörtíma sínum í stjórn en kaus að hætta. Nýir stjórnarmenn LL eru Davíð Rúdólfsson, Gildi lífeyrissjóði; Eyrún Jana Sigurðardóttir, Festu lífeyrissjóði, og Ólafur Páll Gunnarsson, Íslenska lífeyrissjóðnum.
Aðrir aðalmenn í stjórn eru Elsa Björg Pétursdóttir, Stapa lífeyrissjóði; Jakob Tryggvason, Birtu lífeyrissjóði; Auður Kjartansdóttir, Brú lífeyrissjóði, og Valmundur Valmundsson, Lífeyrissjóði Vestmannaeyja. Varamenn stjórnar eru Una Eyþórsdóttir, Íslenska lífeyrissjóðnum; Sigriður Magnúsdóttir, Almenna lífeyrissjóðnum, og Sigurbjörn Sigurbjörnsson, SL lífeyrissjóði. Sigríður er ný á varamannabekknum en Sigurbjörn og Una voru þar fyrir.

Ávöxtun ársins 2024 fer vel af stað

Ávöxtun eigna lífeyrissjóða var betri á fyrstu mánuðum yfirstandandi árs en á sama tímabili í fyrra og reyndar mun betri en stjórnir og stjórnendur höfðu þorað að vona. Á fyrri hluta ársins 2023 ríkti „martraðarástand“ í þessum efnum. Jafnvel kom til tals hjá einhverjum sjóðum að breyta fjárfestingastefnu sinni og auka við hlut skuldabréfa en minnka vægi hlutabréfa. Breyting til batnaðar í ár birtist hins vegar í því að stjórnir lífeyrissjóða hafa hægt á sér við að auka við hlut skuldabréfa á kostnað hlutdeildar hlutabréfa í eignasöfnum sínum. Þetta kom fram í skýrslu stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða sem formaður stjórnarinnar, Jón Ólafur Halldórsson, flutti á aðalfundi LL á Grand Hóteli Reykjavík þriðjudaginn 28. maí.

  • Þegar árið 2023 var gert upp kom í ljós að raunávöxtun eigna íslenskra lífeyrissjóða var jákvæð um hálft prósent, sem jafngildir um 8,5% nafnávöxtun í 8% verðbólgu.
  • Meðalraunávöxtun sjóðanna undanfarin fimm ár var 3,8% og 4,1% undanfarin tíu ár.
  • Eignir lífeyrissjóðakerfisins námu 7.287 milljörðum króna í lok árs 2023.

Grænbók á leiðinni – loksins

Ríkisstjórnin lýsti við upphaf kjörtímabilsins yfir vilja til að endurskoða og rýna lífeyriskerfi landsmanna í heild sinni – sem er í samræmi við ítrekaðar óskir úr röðum forystusveita lífeyrissjóðakerfisins. Fulltrúar lífeyrissjóða lögðu áherslu á að slík endurskoðun, vinna við grænbók um lífeyriskerfið, yrði að vera í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og að leitað yrði til starfandi sérfræðinga innan lífeyrissjóðakerfisins. Starfshópur um grænbók var skipaður og er starfandi. Í honum eru tveir fulltrúar Landssamtaka lífeyrissjóða. Á aðalfundi LL 2023 var gert ráð fyrir að „fyrstu drög grænbókar yrðu til eigi síðar en 1. desember 2023.“ Það gekk ekki eftir en formaður LL sagði nú „vonir standa til að grænbók birtist með haustinu, vonandi sem góður grunnur að sterkmótaðri framtíðarsýn fyrir kerfið okkar.“

„Óþolandi óvissa“ vegna ágreinings í röðum tryggingastærðfræðinga

Formaður LL fór nokkrum orðum um samþykktarbreytingar lífeyrissjóða í samræmi við nýjar töflur um lífslíkur þjóðarinnar og um þá staðreynd að sjóðirnir skiptust í tvo hópa sem hvor um sig valdi sína útfærslu breytinga á samþykktum sínum - í samræmi við mismunandi álit tryggingastærðfræðinga sinna sem í báðum tilvikum fengu tilheyrandi staðfestingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Samþykktarbreyting Lífeyrissjóðs verzlunarmanna var dæmd ólögleg í Héraðsdómi Reykjavíkur og málið fékk flýtimeðferð í Hæstarétti. Búist er við niðurstöðu þar síðar á árinu. Um þetta sagði Jón Ólafur Halldórsson síðan orðrétt: „Slíkt óvissuástand er afar óheppilegt og raunar óþolandi, hvað svo sem líður efnislegri dómsniðurstöðu. Tryggingastærðfræðingar eru fámennur hópur en með mikið áhrifavald. Þeir komu sér ekki saman um útfærslu breytinga í samræmi við nýtt mat á lífslíkum sjóðfélaga. Afleiðingin er sú staða sem lífeyriskerfið er lent í og ekki verður dregin önnur ályktun en sú að hér skorti skýrar leikreglur. Fyrir lífeyriskerfið og fyrir landsmenn alla er mikilvægt að ekki sé deilt um grundvallaratriði á borð við það sem hér um ræðir.“

ÍL-sjóður

Deila lífeyrissjóða og ríkisins um ÍL-sjóðinn er jafnóleyst nú og hún var á aðalfundi LL í fyrra. Þáverandi fjármálaráðherra lagði fyrr á árinu 2024 fram á Alþingi frumvarp um slit ógjaldfærra opinberra aðila sem ætlað var að heimila ríkinu að slíta ÍL-sjóðnum. Landssamtök lífeyrissjóða hvetja stjórnvöld til að hætta við þessi áform sín en „ ... leitast við að ná farsælli lausn á vanda ÍL-sjóðsins, eftir atvikum með samningum um uppgjör við kröfuhafa“, eins og segir í umsögn LL um frumvarpið. Formaður LL sagði um stöðu málsins á aðalfundinum nú:

„Þreifingar hafa verið í gangi um mögulegt samkomulag í deilunni og ég get ekki annað fyrir hönd lífeyrissjóðanna en lýst von um farsæla lendingu en hún er enn ekki sjáanleg innan sjóndeildarhringsins. Staða lífeyrissjóða er afar sterk, ríkið mun ekki komast upp með annað en að efna skuldbindingar sínar til fulls. Meginregla íslensks réttar er þekkt, viðurkennd og skýr, nefnilega að samningar skuli standa.“

Við erum áfram í úrvalsdeildinni

Íslenska lífeyriskerfið var í fyrra í þriðja sinn í samanburði ráðgjafarfyrirtækisins Mercer og samtakanna CFA Institute á lífeyriskerfum 47 ríkja og hlaut þá A í einkunn ásamt Hollandi, Danmörku og Ísrael. Einkunnarorð Mercer eru að lífeyriskerfi í A-flokki séu fyrsta flokks, öflug, tryggi góð réttindi, séu sjálfbær og að um þau ríki traust. Íslenska kerfið var í efsta sæti á lista Mercer 2021 og 2022 en í öðru sæti 2023, sjónarmun á eftir því hollenska. Þá skal þess getið að landsmenn treysta nú lífeyrissjóðum sínum mun betur en áður samkvæmt niðurstöðum samanburðarhæfra viðhorfskannana frá og með árinu 2016. Þegar spurt var: Hversu mikið eða lítið traust berðu til íslensku lífeyrissjóðanna? reyndust 10% svarenda bera mikið traust til sjóðanna árið 2016. Hlutfallið var komið upp í 22% árið 2023 og má nefna í framhjáhlaupi að sambærileg tala um mikið traust gagnvart bankakerfinu var 18%.

Glærur frá aðalfundi 

Aðalfundurinn var vel sóttur