Fyrsta ráðstefnan á vegum PRICE

Rannsóknastofnun um lífeyrismál tekin til starfa

„Ég fagna því að hugmynd um rannsóknastofnun um lífeyrismál sé orðin að veruleika og vænti mikils af starfsemi hennar,“ sagði Jón Ólafur Halldórsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða í skýrslu stjórnar á landsfundi samtakanna 28. maí. Og víst er að nýstofnuð Rannsóknastofnun um lífeyrismál (e. Pension Research Institute Iceland – PRICE) fór myndarlega af stað með fjölsóttri málstofu föstudaginn 24. maí (sjá frekar umfjöllun í síðari hluta fréttarinnar). Fleiri viðburðir eru komnir á dagskrá og enn aðrir í deiglunni síðar á árinu, nánari upplýsingar um viðburði. Þetta kom fram í máli Gylfa Zoega, prófessors í Háskóla Íslands og stjórnarmanns í PRICE, þegar hann kynnti stofnunina fyrir þeim sem sóttu aðalfund Landssamtaka lífeyrissjóða.

Viðburðir í deiglunni 

  • PRICE býður næst til málstofu föstudaginn 7. júní til að fjalla um fjárfestingar lífeyrissjóða, erlendar eignir sjóðanna og tengd mál. Málshefjendur verða bandaríski hagfræðingurinn Robert Z. Aliber, Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Lúðvík Elíasson, yfirmaður rannsókna- og spádeildar Seðlabanka Íslands.
  • Í lok ágústmánaðar verður tveggja daga ráðstefna PRICE í Héraðsskólanum á Laugarvatni þar sem félagar stofnunarinnar kynna rannsóknir sínar varðandi sparnað, neysluhegðun, vinnumarkaðsþátttöku og fleira tengt lífeyrismálum.
  • Í haust er í deiglunni að boða til málstofu um tiltekið viðfangsefni og einnig að efna til ráðstefnu með Landssamtökum lífeyrissjóða um stefnumótun í lífeyrismálum.

Um PRICE 

Stofnsamningur um PRICE var undirritaður á skrifstofu rektors Háskóla Íslands á jólaföstuni í vetur. Stofnunin verður samstarfsvettvangur fræðimanna, Seðlabankans, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og fleiri stofnana sem málefnið varðar. Landssamtök lífeyrissjóða fjármagna starfsemina að hluta, Seðlabankinn og fjármála- og efnahagsráðuneytið leggja til tíma starfsmanna sinna til rannsókna, Háskóli Íslands leggur til húsnæði og ber ábyrgð á skuldbindingum PRICE.
Stofnunin er sjálfstæð en starfar náið með hliðstæðri stofnun tengdri Viðskiptasháskólanum í Kaupmannahöfn.

Málstofa PRICE 26. maí sl., þar sem fjallað var um stefnumótun í lífeyrismálum 

Michael Orzag, yfirmaður alþjóðarannsókna við Willis Towers Watson ráðgjafafyrirtækið, flutti inngangserindi um rannsóknir á sviði lífeyrismála næstu tuttugu árin. Hann sagði að þróun í lífeyrismálum hefði verið tiltölulega hæg undanfarin tuttugu ár, sem og rannsóknir og þróun í líkanagerð til lífeyrisrannsókna. Öðru máli gegndi um næstu tuttugu ár, þar ætti hann von á mun meiri og jafnvel hraðari breytingum en hingað til. Hann taldi líklegast að áhrifaþættir breytinganna yrðu þrír: Tækni, lýðfræðileg þróun og vægi ríkja í heimsmyndinni (e. geopolitics). Hraðar breytingar í hverjum þessara áhrifaþátta geti eftir atvikum leyst vandamál eða stóraukið þau.

Vélmenni gætu létt á þjónustuþörf 

Á sviði tækninnar beindi hann sjónum að áhrifum gervigreindar, vélmenna og lífvísinda sem gætu létt á þjónustuþörf við aldraða. Jafnframt velti hann upp mannfjöldaþróun í stærstu hagkerfum heims og benti á þá staðreynd að spálíkön hefðu yfirleitt gert ráð fyrir minnkandi átökum ríkja þótt raunin hafi orðið önnur. Orzag telur að Íslandi geti orðið mikilvægur vettvangur til lífeyrisrannsókna og brýnt sé að efla þverfaglegt samstarf um markvissar rannsóknir.

Viðbrögð í pallborði

Fimm þátttakendur lýstu í pallborðsumræðum viðfangsefnum sem þeir telja þörf á að rannsaka.

  • Ásta Ásgeirsdóttir, hagfræðingur Landssamtaka lífeyrissjóða, benti á að lífeyrisþegar á Íslandi væru ekki einsleitur hópur og munur væri á því hvernig lífeyriskerfið hæfði þeim. Hún segir að kerfið sé einkum miðað við millitekjuhópinn og henti honum best. Lágtekjuhópurinn búi við þrengingar og hátekjuhópurinn leggi jafnvel of mikið fyrir með 15,5% iðgjöldum af launum. Ásta hefur áhyggjur af aukinni örorkutíðni og telur jafnframt þörf á að rannsaka mögulega þörf fyrir hækkun lífeyristökualdurs hér á landi, svo og tíðari snemmtöku lífeyris.
  • Torben M. Andersen, hagfræðiprófessor við háskólann í Árósum, reynslumikill fræðimaður og stjórnarmaður í lífeyrissjóði, fjallaði um þær sífellt algengari breytingar sem felast í því að lífeyrissjóðir skilgreindra réttinda (defined benefit) verði lífeyrissjóðir skilgreindra iðgjalda (e. defined contribution). Það leiði til aukinnar áhættu sjóðfélaga sem þeir þó sjaldnast átti sig á. Hliðaráhrif geti orðið önnur, eins og t.d. í Danmörku þar sem almannatryggingakerfið veiti sjóðfélögum aukinn lífeyri ef afkoma lífeyrissjóðanna versni. Þannig sé í reynd verið að færa áhættuna yfir á ríkissjóð. Við þessu sé vænlegast að bregðast við með meiri fjölbreytni í lífeyriskerfinu til áhættudreifingar.
  • Svend E. Hougaard Jensen, hagfræðiprófessor við Copenhagen Business School og stjórnandi í PeRCent – rannsóknastofnun lífeyris í Kaupmannahöfn, fjallaði um hraða fjölgun fólks yfir 85 ára aldri og vaxandi þörf fyrir langtímaumönnun sem leiði til þess sem kalla megi þjónustuskort. Þar standi Danmörk verst í hópi sambærilegra ríkja. Þessi skortur komi sérlega illa við láglaunastéttir sem glími oft við meira líkamlegt slit eftir starfsævina og þar sé vaxandi ósætti við kerfið. Fjölga þurfi starfsfólki í langtímaumönnun og það sé ekki auðvelt verk.
  • Gylfi Zoëga, prófessor í Háskóla Íslands, beindi sjónum að ójafnvægi í heimshagkerfinu þar sem hækkandi meðalaldur á Vesturlöndum feli í sér aukinn sparnað sem þurfi að leita viðfangs annars staðar. Hingað til hafi Bandaríkin verið stærsti viðtakandinn þessa sparnaðar í formi fjárfestinga. Vaxandi verndarhyggja þar í landi muni þrengja að lífeyrissjóðum í Evrópu og auka ójafnvægi. Ekki sé augljóst að fjárfestingar í Afríkuríkjum og víðar í þróunarríkjum séu traust leið til ávöxtunar.
  • Michael Orzag lagði áherslu á sjálfbærni lífeyriskerfa og að auka þurfi umræðu og rannsóknir á öllum hliðum kerfanna. Hingað til hafi verið of mikil áhersla á að fá meira fé í kerfin en nú þurfi að leggja áherslu á skilvirkni kerfanna. Orzag bendir á að einn af lykilhagvísum lífeyriskerfa sé hversu hátt hlutfall fólks vinni eftir 65 ára aldur.

Innflytjendamál ofarlega á baugi 

Í umræðum á pallborðinu og í spurningum úr sal voru innflytjendamál ofarlega á baugi. Rætt var um áhrif þeirra á vinnumarkað og lífeyrisbyrði og bent á að í þessum efnum sé í sívaxandi mæli horft til færni vinnuafls í stað fjölda vinnandi handa.