Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í ræðustóli. Sitjandi frá vinstri: Rúnar Guðmundsson, Gunnar Ingólfsson, Eggert Þröstur Þórarinsson og Sigurður Freyr Jónatansson. Á fundinum gerðu þeir grein fyrir megináhersum umræðuskýrslunnar en fyrrgreindir starfsmenn voru fulltrúar starfshóps sem hélt utan um gerð ritsins.
„Jákvætt og lofsvert að fá frá Seðlabankanum skýrslu um umsvif og starfsemi lífeyrissjóða, einkum í ljósi þess að yfirlýst markmið bankans er að skapa þannig umræðu.
Margt er þarna áhugavert, vekur spurningar eða kallar á athugasemdir en til þess er líka leikurinn gerður og við fögnum frumkvæðinu.“
Nokkurn veginn á þessum nótum má taka saman viðbrögð fulltrúa lífeyrissjóða við nýbirtu sérriti Seðlabanka Íslands um lífeyrissjóðakerfið á samkomu sem bankinn boðaði til í Safnahúsinu við Hverfisgötu á dögunum.
Fulltrúar starfshóps sem komu að gerð skýrslunnar kynntu efni hennar og síðan voru pallborðsumræður og gestir í sal lögðu orð í belg með spurningum eða athugasemdum. Meginatriði ritsins eru dregin hér saman í nokkrum kaflafyrirsögnum:
- Vöxtur, árangur en áskoranir
- Skynsemisreglan ætti að vera ráðandi í fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða
- Samræma ætti eftir því sem við á lög um lífeyrissjóði og löggjöf um aðra eftirlitsskylda aðila á fjármálamarkaði
- Skoða þarf heimildir lífeyrissjóða til afleiðuviðskipta og verðbréfalána
- Eftirlit og útgáfu starfsleyfa ætti að færa til Seðlabanka Íslands
- Bæta ætti umgjörð um tryggingafræðilegt mat og breytingar á áunnum lífeyrisréttindum
- Treysta þarf rekstraröryggi lífeyrissjóðanna.
Margar og margvíslegar aðfinnslur Seðlabankans
Seðlabankaskýrslan er aðgengileg aflestrar og kjarnaatriði í mál höfunda hennar og útgefanda eru afmörkuð í boxum lesendum til frekari glöggvunar. Hér eru nokkur slík dæmi:
- Seðlabankinn telur að tilgreind séreign auki flækjustig lífeyriskerfisins og þörf sé á að skýra regluverk henni tengd.
- Seðlabankinn telur rétt að séreignarsparnaður, þar með talin tilgrein séreign, falli undir sérlöggjöf til að jafna starfsskilyrði vörsluaðila og stuðla að samræmdri upplýsingagjöf til sjóðfélaga.
- Til langs tíma litið eru erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna sveiflujafnandi fyrir hagkerfið. Þegar útflutningsáföll verða hér á landi getur þessi fjárfesting hins vegar skapað þrýsting á gengi krónunnar. Samráð og samvinna stjórnvalda við lífeyrissjóði getur verið gagnleg og telur Seðlabankinn að til greina gæti komið að formfesta með hvaða hætti æskilegt væri að sjóðirnir brygðust við ef til alvarlegra efnahagsáfalla kæmi. Lykilatriði er að treysta fjármálastöðugleika og draga úr líkum á því að beita þurfi hörðum og víðtækum takmörkunum á fjármagnsflæði síðar meir.
- Seðlabankinn telur mikilvægt að samræma sjónarmið um varfærni í fjárfestingu lífeyrissparnaðar annars vegar og markmið um öflugan og skilvirkan verðbréfamarkað hins vegar. Seðlabankinn leggur til afnám eða slökun á magnbundnum takmörkunum á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna til að auðvelda þeim að nýta fjárfestingartækifæri á markaðnum og gera þeim kleift að byggja fjárfestingarákvarðanir á skynsemisreglunni.
- Seðlabankinn leggur til að heimildir lífeyrissjóða til afleiðuviðskipta verði endurskoðaðar í heild og að heimildir til verðbréfalána verði endurskoðaðar.
- Seðlabankinn telur mikilvægt að fram fari umræða um með hvaða hætti heppilegast sé að lífeyrissjóðir komi að fasteignalánamarkaði. Lífeyrissjóðir ættu að lúta sambærilegu regluverki og bankar með tilliti til útána- og mótaðilaáhættu.
- Seðlabankinn telur að nauðsynlegur þáttur í samræmingu löggjafar um lífeyrissjóði við aðra löggjöf um eftirlitsskylda starfsemi væri að að færa verkefni tengd veitingu starfleyfis, staðfestingu samþykkta og samninga og skipun umsjónaraðila frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til fjármálaeftirlits Seðlabankans.
- Seðlabankinn telur að samræma þurfi hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða því sem almennt gildir á fjármálamarkaði.
- Seðlabankinn telur mikilvægt að auka upplýsingagjöf til sjóðfélaga samtryggingardeilda enda verður að telja að verulega halli á upplýsingaskyldu um lágmarkstryggingavernd þrátt fyrir að sá hluti lífeyrissparnaðar sé veigamestur í öflun lífeyristekna flestra sjóðfélaga.
- Seðlabankinn telur að endurskoða þurfi 3,5% raunvaxtaviðmið við núvirðingu lífeyrisskuldbindinga og að mótuð verði umgjörð við endurskoðun vaxtaferils eða vaxtaviðmiðs sem notað er við núvirðingu lífeyrisskuldbindinga.
- Seðlabankinn telur þörf á að endurskoða fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða með það að markmiði að skynsemisreglan verði ráðandi í fjárfestingum þeirra.
Viðbrögð lífeyrissjóða
Þátttakendur í pallborðsumræðum í síðari hluta fundar í Safnahúsinu voru Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Björk Sigurgísladóttir og Tómas Brynjólfsson varaseðlabankastjórar, Ólafur Páll Gunnarsson, framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins, Rebekka Ólafsdóttir, forstöðumaður hjá Gildi lífeyrissjóði, og Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.
Fulltrúar lífeyrissjóðakerfisins sögðu vissulega þörf á að breyta ýmsu í lögum um lífeyrissjóði og það hefði lengi blasað við. Hins vegar mætti margt nefna sem gerði það varhugavert að fella lífeyrissjóði undir sama laga- og regluverk og banka og tryggingafélög. Lífeyrissjóðir hefðu sérstöðu, löggjöf um þá væri til að mynda íslensk og ekki háð ESB-reglum.
Sérstæðan fælist og í því að aðilar vinnumarkaðarins hefðu lagt grunn að lífeyriskerfinu og ættu þar sterka rödd. Lífeyrissjóðir hefðu líka ákveðið félagslegt hlutverk og væru að því leyti ósambærilegir fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum.
Þá var nefnt að lífeyrissjóðir væru með annars konar skuldbindingar og áhættusnið en bankar og lýst var eftir viðeigandi dæmum um hvenær og hvernig Seðlabankinn sæi fyrir sér að lífeyrissjóður kynnu að ógna fjármálastöðugleika í þjóðfélaginu.
Þá var þeim spurningum varpað fram hvenær eignir lífeyrissjóða teldust „nægilega fjölbreyttar“ að mati fjármálaeftirlits Seðlabankans og hvort þörf væri á því að reyna að orða „heilbrigða skynsemi“ í fjárfestingum í lagatexta?
Framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs lauk sínum athugasemdum með því að segja að engan veginn stæðist fullyrðing um að bankar væru betur fallnir til þess en lífeyrissjóðir að lána fólki fjármuni til fasteignakaupa. Ekki þyrfti að horfa mörg ár aftur í tímann til að átta sig á því.
Viðbrögð lífeyrissjóða ASÍ-forsetans
Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, var meðal þeirra gesta í sal er kvöddu sér hljóðs. Hann sagði skýrsluna, sjálft umræðuefni fundarins, vera ágæta „að undanskilinni ásælni Seðlabankans í að hafa meiri áhrif á lífeyrissjóðakerfið og reyna að ryðja brautina fyrir bankana í sjóðfélagalánin, einu samkeppnina á bankamarkaði.“
Hann lýsti eftir viðhorfum sjóðfélaga í skýrslunni. Þeir væru hvorki fjármálastöðugleiki né gjaldeyrisforði heldur eigendur lífeyrisréttinda sinna í sjóðunum.
ASÍ-forsetinn bætti því við að lífeyrissjóðakerfið væri á ábyrgð launafólks og atvinnurekenda, þar með talið fyrirkomulag stjórnarkjörs í sjóðunum. Seðlabankinn væri kominn inn á vettvang almennra kjarasamninga með því að skipta sér af reglum um stjórnarfyrirkomulag lífeyrissjóða.