Eignir lífeyrissjóðanna jukust um 42,5 milljarða króna í nóvember s.l.

Óvenjumikil hækkun varð á eignum lífeyrissjóðanna í nóvember s.l. Eignirnar jukust úr 1.127 milljörðum kr. í lok október s.l.  í 1.169 milljarða kr. í lok nóvember s.l.  eða um 42.5 milljarða kr., sem er 3,8% aukning á einum mánuði. Frá ársbyrjun 2005 hafa eignir lífeyrissjóðanna aukist um 183 milljarða kr. til nóvemberloka s.l. eða um 18,5%.  Til marks um þá miklu eignaaukningu sem varð í nóvember s.l. eða um 42,5 milljarða króna, má benda á að eignir sjóðanna jukust að meðaltali um 16.6 milljarða króna í hverjum mánuði síðasta árs til loka nóvember.

Líkur eru á því að eignir lífeyrissjóðanna verði  um 1.200 milljarða króna  í lok ársins 2005.  Skýringin á þessari eignaaukningu má rekja til mikillar hækkunar á innlendum hlutabréfum, en einnig hafa erlendir verðbréfamarkaðir skilað drjúgum tekjum.    

Þessar upplýsingar koma fram í efnahagsyfirliti lífeyrissjóða, sem Seðlabanki Íslands gefur út og er byggt á áætlun 22 stærstu lífeyrissjóðanna, sem í árslok 2004 áttu 94% af hreinni eign allra lífeyrissjóða.

Erlendar eignir lífeyrissjóðanna námu í lok nóvember s.l. rúmlega 285 milljörðum króna eða um 24,4% af heildareignum sjóðanna. Þetta hlutfall nam um 22,1% í lok árs 2004.

Þá vekur athygli að sjóðfélagalánin námu alls 93,4 milljörðum kr. í lok nóvember og höfðu aukist um 6,6 milljarða kr. á árinu. 8% af eignum sjóðanna eru bundin í lánum til sjóðfélaga.

Sjá einnig meðfylgjandi upplýsingar úr efnahagsyfirliti lífeyrissjóða:    

 

Eignaflokkar       

    Árslok 2004       

    Nóvemberlok 2005      

    Breyting í %    

Útlán og verðbréfaeign

950.328 m. kr.

1.133.926 m. kr.

19,3%

Verðbréf með föstum tekjum

524.326 m. kr.

582.136 m. kr.

11,0%

Sjóðfélagalán

86.826 m. kr.

93.390 m. kr.

7,6%

Verðbréf með breytilegum tekjum

426.002 m. kr.

551.790 m. kr.

29,5%

Innlend hlutabréf

127.905 m. kr.

175.836 m. kr.

37,5 %

Erlend verðbréfaeign

217.578 m. kr.

285.431 m. kr.

31,2%

Hrein eign til greiðslu lífeyris

986.535 m. kr.

1.169.301 m.kr.

18,5%