Samkvæmt upplýsingum frá tölfræðisviði Seðlabanka Íslands námu heildareignir lífeyrissjóðanna um síðustu áramót 647.941 m.kr., þar af námu erlendar eignir sjóðanna 21,2%, sem er hlutfallsleg lækkun frá fyrra ári. Heildareignir lífeyrissjóðanna jukust um 81.853 m.kr. milli ára eða um 14,5%.
Um er að ræða áætlun sem byggist á úrtaki lífeyrissjóða með rúm 90% af heildareignum. Erlend verðbréf í eigu lífeyrissjóðanna námu alls 137.597 m.kr. í árslok 2001, sem er 21,2% af heildareignum, eins og áður segir. Í árslok 2000 námu erlendar eignir sjóðanna hins vegar 127.991 m.kr. eða 22,6% af heildareignunum. Í krónutölu nam aukningin á erlendum eignum sjóðanna 7,5%, miðað við 30,5% aukningu milli áranna 1999 og 2000. Um raunverulega lækkun var hins vegar að ræða vegna veikingar íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum á síðasta ári. Sérstaka athygli vekur mikil aukning sjóðfélagalána, en þau voru 73.599 m.kr. í árslok 2001 miðað við 55.942 m.kr. í árslok 2000. Aukningin nam um 31,6%. Umtalsverð aukning var líka á milli áranna 1999 og 2000 eða úr 44.462 m.kr. í 55.942 m.kr. eða um 25,8%.