Eignir lífeyrissjóðanna 1.572 milljarðar króna í lok apríl s.l.

Hrein eign lífeyrissjóðanna nam 1.572 milljörðum í lok apríl og jókst um rúmlega 35 milljarða króna eða 2,3% í mánuðinum. Undanfarna 12 mánuði hafa eignir lífeyrissjóðanna aukist um 16,4% samanborið við 28,7% ársvöxt til loka apríl í fyrra. Þetta kemur fram í tölum sem tölfræðisvið Seðlabankinn hefur tekið saman og birtust í Morgunkorni Glitnis í dag.

„Innlend verðbréfaeign hefur aukist um 20,3% sl. 12 mánuði samanborið við 17,8% á sama tímabili í fyrra. Má rekja það að mestu leyti til hækkunar á innlendum hlutabréfum, en úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um 36% á tímabilinu.

Á sama tíma hefur hægt á aukningu í erlendri verðbréfaeign lífeyrissjóðanna. Ársvöxturinn til loka apríl var 7,4% en vöxturinn miðað við sama tímabil í fyrra var 70%. Hér spila vitaskuld gengishreyfingar krónu stórt hlutverk þar sem styrking krónu minnkar virði erlendra verðbréfa í krónum talið og hið gagnstæða gildir um veikingu. Gengi krónu var u.þ.b. 10% hærra í lok apríl síðastliðins en raunin var á sama tíma í fyrra, en næstu 12 mánuði á undan hafði krónan hins vegar veikst um 12,5%," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.