Erfitt efnahagsástand í heiminum á síðasta ári hafði í för með sér meira tap hjá lífeyrissjóðum en þekkst hefur um margra ára skeið og féll heildarverðmæti eigna lífeyrissjóða um 18% árið 2008 samkvæmt rannsóknum International Financial Services London (IFSL).
Í skýrslu IFSL, Pension Markets 2009, kemur fram að á árinu 2008 hafi verið neikvæð ávöxtun hjá lífeyrissjóðum í flestum löndum og að flestir eignaflokkar hafi fallið í verði. Meðalávöxtun hjá sjóðum í OECD löndum var samkvæmt skýrslunni neikvæð um 19% fyrstu 10 mánuði ársins 2008.
Í skýrslunni kemur fram að hlutabréfaeign hafi átt þátt í halla í flestum löndum og er tekið sérstaklega fram að fjárfestar hafi almennt ekki gert sér grein fyrir því, þegar verið var að dreifa áhættunni með því að fjárfesta í verðbréfasjóðum, hversu mjög undirliggjandi eignir sjóðanna voru í hlutabréfum.
Þá kemur fram að eignasöfn sem byggðu að stórum hluta á innlendum ríkistryggðum skuldabréfum hafi reynst best varin, en hlutabréf auk skuldabréfa í fyrirtækjum hafi stuðlað að rýrnun eigna.
Tölurnar sýna að virði eigna lífeyrissjóða á heimsvísu féll frá því að vera 30,4 trm í lok árs 2007 í 25 trm í lok árs 2008. Stærstur hluti þessara eigna eða 64% var í Bandaríkjunum, 11% í Bretlandi, 5% í Kanada en síðan koma Holland, Ástralía og Japan, hvert land með 3%.
Rannsókn IFSL leiðir í ljós að í lok árs 2007 voru eignir lífeyrissjóða meiri en þjóðartekjur í Danmörku, BNA, Hollandi, Bretlandi, Ástralíu, Kanada og í Sviss. Á sama tíma voru eignir lífeyrissjóða metnar 50 til 110% af vergri landsframleiðslu.
Í skýrslunni kemur fram að öll lönd sem tekin voru til skoðunar af OECD árið 2008 hafi sýnt neikvæða ávöxtun fyrstu 10 mánuði ársins 2008. Tapið reyndist mest á Írlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og í Kanada þar sem ávöxtun var neikvæð um 20% á meðan tapið var minnst á Ítalíu 6% en Spánn og Þýskaland voru bæði með ávöxtun sem reyndist neikvæð um 7%.
Þróun eignasafna
Rannsóknin dregur einnig fram þróun eignasamsetningar síðustu árin í þeim fimm löndum sem ráðstafa mestum lífeyriseignum, Bandaríkjunum, Bretland, Holland, Japan og Ástralía.
Þar kemur fram að í kjölfar falls innlendra hlutabréfa í lífeyrissjóðasöfnum í Bretlandi hafi hlutabréfaeign fallið úr því að vera 67% árið 2003 í 56% árið 2007. Í Bandaríkjunum, Ástralíu og Hollandi hefur hlutfall hlutabréfa verið stöðugt en það jókst í Japan á þessu tímabili úr 44% 2003 í 51% árið 2007.
Skuldabréfaeign í Japan féll á þessu tímabili úr 45% í 32% og er það fyrst og fremst rakið til rýrnunar á innlendum skuldabréfum. Á sama tíma drógst skuldabréfaeign í Bandaríkjunum einnig saman úr 34% í 30%.
Hið gagnstæða var uppi á teningnum í Bretlandi þar sem fjárfestingar í skuldabréfum tvöfölduðust á tímabilinu 2003 til 2007 úr 15% í 30% og í Hollandi varð einnig aukning úr 40% í 43% en fjárfestingar Ástrala voru stöðugar í 21%.
Tölurnar sýna að eignir í reiðufé, fasteignum og öðrum fjárfestingum var mismunandi milli landanna fimm. Ástralía var með um 25% í öðrum fjárfestingum, þar á meðal 10% bæði í reiðufé og fasteignum. Japan var með 12% í eignum eins og vogunarsjóðum, framtakssjóðum og afleiðum en í Bretlandi voru 7% eigna í reiðufé og fasteignum.
Í skýrslunni kemur fram að þrátt fyrir að afkoma annars konar sjóða í óhefbundnum fjárfestingum (alternative funds) hafi versnað jafn mikið og af hlutabréfum árið 2008, séu vísbendingar um aukinn áhuga evrópskra og asískra lífeyrissjóða á óhefðbundnum eignum og þar hefur gull reynst árangursríkast.
Í skýrslunni kemur einnig fram að mikil hlutabréfaeign í þessu fimm löndum endurspegla ekki ástandið í öðrum löndum OECD. Þannig hafi skuldabréf verið meira en 50% heildareigna í lok árs 2007 í 10 löndum, þar á meðal í Noregi, Danmörku, Póllandi og á Spáni. Þá kemur fram í skýrslu IFSL að fjárfestingar í hlutabréfum séu innan við 10% lífeyrissjóðseigna í sjö löndum þar á meðal í Belgíu, Tékklandi og Ítalíu.
Hér má nálgast skýrslu International Financial Services London (IFSL).
Meginmál]