Eftirlaunaflugeldur danska forsætisráðherrans sprakk skömmu eftir flugtak

Ríkisstjórn Danmerkur heldur því ekki til streitu að afnema svokallað eftirlaunakerfi en ætlar í staðinn að breyta því umtalsvert í sparnaðarskyni. Stjórnina skorti einfaldlega nægjanlegan stuðning á danska þinginu til að koma áformum sínum til framkvæmda. Nú er stefnt að því að hækka eftirlaunaaldur úr 60 í 62 ár og hækka opinberan lífeyrisaldur úr 65 í 67 fyrir 2020.

Lars Rökke Rasmundsen, forsætisráðherra ríkisstjórnar mið- og hægriflokka í Danmörku, skaut miklum pólitískum flugeldi á loft í nýársárvarpi sínu í vetur Hann boðaði þá að margumtalað eftirlaunakerfi Dana yrði lagt af í áföngum og að opinber lífeyrisaldur yrði hækkaður í 68 ár fyrir 2030. Þar með hefði lífeyrisaldur Dana orðið sá hæsti innan Efnahagsstofnunarinnar OECD. Skemmst er frá að segja að boðskapur forsætisráðherrans kallaði harkaleg viðbrögð yfir ríkisstjórnina úr mörgum áttum, innan löggjafarþingsins í Kaupmannahöfn og í samfélaginu sjálfu.

 

Þegar á reyndi hafði stjórnin ekki pólitískan stuðning á þingi fyrir áformum sínum og áramótaflugeldur forsætisráðherrans sprakk því í raun löngu áður en hann náði upp í himinhvolfið. Ríkisstjórnin hefur að vísu ekki lagt áformin á hilluna í orði kveðnu en í raun boðar hún nú verulegar breytingar og sparnaðaraðgerðir á þessum vettvangi í stað þess að slá sjálft kerfið af.

 

Þetta kemur fram í rammaáætlun um ríkisfjármál Danmerkur sem hefur að markmiði að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum árið 2020. Fjármálaráðherrann, Claus Hjort Frederiksen, lét fylgja með yfirlýsingu um markmið ríkisstjórnarinnar að Danir hefðu engin efni á að borga fullfrísku og vinnufæru fólki fyrir að hverfa af vinnumarkaði, fólki sem rík þörf væri fyrir til að stuðla að efnahagslegum vexti,  kenna börnum og annast um aldna og sjúka. Ríkisstjórnin vonast til að boðaðut sparnaður í ríkisrekstri muni styrkja einkageirann og skapa þar 125.000 ný störf til ársins 2020.

  • Eftirlaunakerfi Dana var sett á laggir árið 1979 og vakti athygli um víða veröld, enda þótti það býsna mikill lúxus í samanburði við þann veruleika sem blasti við fólki í flestum ef ekki öllum öðrum ríkjum. Kerfinu var ætlað að gera erfiðisvinnufólki kleift að hætta að vinna um sextugt, fimm árum áður en það náði opinberum lífeyrisaldri. Þannig átti að gera ungu fólki kleift að komast í vinnu þegar þeir eldri stigju til hliðar á vinnumarkaðinum og draga þar með úr langtímaatvinnuleysi meðal Dana. Alls nutu um 150.000 Danir góðs af þessu fyrirkomulagi árið 2009 og kostnaður sem féll á ríkissjóðinn þar í landi, vegna eftirlaunanna, nam þá um 23 milljörðum danskra króna.

 

Byggt á politiken.dk, hd.se og plansponsor.com