Eftirlaunaaldur og þverstæður í Frakklandi

Franski forsetinn, Nicolas Sarkozy, barðist fyrir því í tvö ár að hækka lágmarkseftirlaunaaldur úr 60 í 62 ár og að fólk færi á full eftirlaun við 67 ára aldur í stað 65 ára. Hann hafði sitt í gegn og staðfesti lög þar að lútandi í nóvember 2010. Vandinn er bara sá að atvinnurekendur horfa í hina áttina og vilja frekar hafa ungt fólk í vinnu en það sem eldra er. Málið er því býsna þversagnakennt.


Einungis um 40% Frakka á aldrinum 55-64 ára eru starfandi á vinnumarkaði, sem er eitt lægsta hlutfall sem þekkist í þróuðum ríkjum. Sambærilegt hlutfall innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD er þannig 54%, um 46% í Evrópusambandinu og um 60% í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Forstjórar og mannauðsstjórar í frönskum fyrirtækjum álíta greinilega að það sé bara vandamál frekar en kostur að hafa starfsmenn sem komnir eru fram yfir miðjan aldur og slík viðhorf sækja á frekar en hitt. Viðhorfskönnun meðal franskra forstjóra árið 2007 leiddi í ljós að yfir helmingur þeirra telur 45-55 ára gamla starfsmenn orðna „gamla“.
Ný könnun meðal mannauðsstjóra staðfestir svipað viðhorf og sýnir að starfsmenn þurfa hvorki að búast við starfsþjálfun né stöðuhækkun í sama mæli og áður þegar þeir ná 45 ára aldri. Mannauðsstjórarnir telja hreinlega að eldri starfsmenn séu ekki eins móttækilegir fyrir nýjungum og nýjum upplýsingum og þeir yngri. Það leiðir svo aftur til þess að þeir sem nálgast fimmtugsaldurinn minna við að vera í vinnunni en áður.
Anne-Marie Guillemard, félagsfræðiprófessor í Sorbonneháskóla, segir að starfsmenn, sem komnir eru yfir miðjan aldur, vilji gjarnan halda áfram að vinna en þegar þeir sjái skýr merki um að þeirra nærveru sé í raun ekki óskað á vinnustaðnum samþykki margir þeirra að semja frekar strax um starfslok gegn greiðslu.
„Frakkar komnir yfir fimmtugt eiga erfitt með að skipta um vinnu. Séu þeir orðnir 55 ára er það nánast vonlaust,“ segir prófessor Guillemard og bendir á að þetta fólk sé þá gjarnan á atvinnuleysisbótum þar til það komist á eftirlaun.
Stjórnvöldum Frakklands er að hluta til sjálfum um að kenna að svona er komið á vinnumarkaði þar vegna þess að áður stuðlaði ríkið beinlínis að því Frakkar gætu hætt snemma að vinna til að rýma fyrir yngra fólki á vinnumarkaði. Afleiðingin var sú að atvinnuleysi fólks á miðjum aldri og eldra stórjókst og fór upp í 70% en atvinnuleysi ungs fólks dróst samt ekki saman og var að jafnaði 25%.
Prófessor Guillemard hefur skrifað bók um vinnumarkaðsmál í Frakklandi: The Challenges of Aging: Age, Employment and Retirement  og varpar þar fram spurningu um hvað sé til ráða. Hún svarar sjálf: Horfið til Finnlands! og segir að áður fyrr hafi Finnar stefnt í svipaða átt og Frakkar en snúið við blaðinu. Stjórnvöld í Finnlandi hafi lagt að stjórnendum fyrirtækja að meta gagnsemi þess að hafa eldra fólk lengur í vinnu. „Finnar hvöttu til þess að eldri starfsmenn fengju nauðsynlega þjálfun og sniðu vinnuumhverfið að þörfum þeirra, sem virkaði bæði hvetjandi á þá og jók afköst.“
Árangurinn lét ekki á sér standa og á árunum 2000 til 2009 hækkaði hlutfall 55-64 ára gamalla Finna á vinnumarkaði úr 42% í 56%.
Prófessor Guillemard bætir við að þessari stefnu hafi verið tekið opnum örmum í fyrirtækjum í Finnlandi og eldri starfsmenn njóti nú í raun þeirrar reynslu sem þeir búi að.  Hún bendir á að opinberi geirinn í Frakklandi, þar sem er að finna fimmta hvert starf á vinnumarkaði þar í landi, sé kjörinn vettvangur til að prófa að gera betur en áður við eldri starfsmenn.
Vandinn er bara sá að þar mæta franskir ráðamenn sjálfum sér í dyrum. Sarkozy forseti ætlar nefnilega að skera niður í opinberum rekstri og fækka starfsfólki. Slíkt samræmist auðvitað illa hugmyndum um að lengja á sama tíma starfsævi fólks í opinbera geiranum!
Aðalheimild: Time, 14. mars 2011