Forystumenn í lífeyrissjóðakerfi Danmerkur eiga í viðræðum við dönsku ríkisstjórnina um að stofna áhættufjárfestingarsjóð og leggja honum til 5 milljarða danskra króna eða um 670 milljónir evra. Danska efnahags- og viðskiptaráðuneytið tilkynnti þetta og fylgdi sögu að Brian Mikkelsen efnahagsráðherra hefði átt fund með fulltrúum bæði lífeyrissjóða almenns og opinbers vinnumarkaðar.
Lars Rohde, framkvæmdastjóri sjóðs fyrir viðbótarlífeyrissparnað, ATP, sagði í viðtali við fréttaveituna IPE að tilgangur sjóðsins væri að greiða aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að áhættufjármagni. Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Lökke Rasmussen, kynnti hugmyndina að sjóðnum skömmu áður þegar hann greindi frá aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bæta efnahagsástandið innanlands og verja velferðarkerfið á tímum niðursveiflu. Rohde bendir á að lítil og meðalstór fyrirtæki séu umfangsmikill drifkraftur í danska efnahagslífinu, sem hafi orðið fyrir þungu höggi í niðursveiflunni, og því sé mikilvægt að finna leiðir til að hjálpa þeim.
Fulltrúar ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðakerfins eru sammála um að aðgerða sér þörf og skipuðu aðgerðahóp til að skilgreina verkefnið og næstu skref.
Talsmenn margra danska lífeyrissjóða hafa að undanförnu lýst opinberlega áhyggjum af að slíkur áhættufjárfestingarsjóður yrði annað hvort óarðbær eða lán úr honum yrðu of dýr fyrir væntanlega viðskiptavini. Lars Rohde fullyrðir hins vegar að ríkisstjórnin hafi lofað því að styðja við framtakið og hann hafi því fulla trú á að viðunandi niðurstaða fáist fyrir alla sem hlut eiga að máli.
- byggt á grein í Investments and Pensions Europe, 17. ágúst 2010