Danskir lífeyrissjóðir fjárfesta í vindmyllum á sjó til raforkuframleiðslu

Tveir danskir lífeyrissjóðir hafa í sameiningu keypt helmingshlut í félagi sem ætlað er að virkja vindinn yfir Kattegat og sjá Dönum fyrir sem svarar til 4% af raforkunotkun sinni á ári. Seljandi eignarhlutarins er ríkisorkufyrirtæki Danmerkur, DONG Energy A/S. Lífeyrissjóðirnir tveir, PensionDanmark og PKA (Pensionkassernes Administration) stofnuðu félag um eignarhlut sinn í vindmyllugarðinum í Kattegat, Anholt Havmøllepark. Þeir taka formlega við rekstri vindmyllanna í apríl 2014. PensionDanmark eignast 30% í vindmyllugarðinum en PKA 20%.

Áætlað er að vindmyllugarðurinn í Kattegat geti framleitt um 400 MW þegar hann verður tekinn fullbúinn í gagnið. Til samanburðar má geta þess að uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar, langstærstu virkjunar Íslendinga, er 690 MW. Vindmyllugarðurinn verður því meira en hálfdrættingur á við Kárahnjúkavirkjun.

Danskir lífeyrissjóðir sýna því verulegan áhuga í orði og verki að stunda „græna orkuframleiðslu“ heima fyrir.

PensionDanmark hefur þannig búið sig skipulega undir það á undanförnum árum að fjárfesta í vindorkuframleiðslu rafmagns. Þessi sami lifeyrissjóður á fyrir hlut í öðru „grænu“ fyrirtæki sem virkjar orku sólar, Green Power Partners Solar Energy Fund.

Hinn nýi hluthafinn í vindorkugarðinum, PKA á líka hlut í orkufyrirtækinu European Clean Energy Fund.