Danmörk: Ellilífeyrisaldur mun hækka á næstu árum.

Hjá frændum okkar Dönum er breið pólitísk samstaða um nauðsyn þess að hækka ellilífeyrisaldurinn. Danska þjóðin eldist og lífsflíkur aukast, sem merkir að sífellt færri vinnandi menn standa að baki hverjum ellilífeyrisþega, sem þarfnast hjúkrunar og umönnunar.
Ekki bætir úr skák að vegna strangrar innflytjendalöggjafar hafa færri erlendir verkamenn getað komið til Danmerkur í atvinnuleit og inn á vinnumarkaðinn. Á síðasta ári voru sérstök velferðarlög samþykkt á danska þinginu, sem m.a. mun hafa í för með sér að hinn almenni ellilífeyrisaldur mun hækka úr 65 árum í 67 ár.

Til að koma í veg fyrir fjárhagslegt óöryggi fyrir væntanlega bótaþega verður þessi hækkun á ellilífeyrisaldri framkvæmd í skrefum, þ.e. hálft ár í senn, á árunum 2024, 2025, 2026 og 2027.

Í raun og veru er þó ekki öll sagan sögð. Ef lífslíkur eiga eftir að aukast í framtíðinni, þá hafa stjórn-málamenn fallist á að ellilífeyrisaldurinn þurfi að hækka að sama skapi. Þá er einnig gert ráð fyrir aðlögun hvað varðar frekari hækkun ellilífeyrisaldurs fyrir væntanlega bótaþega, svo þeir hafi tíma til að undirbúa sig fjárhagslega undir slíka breytingu.

Jafnvel danskir jafnaðarmenn, sem hafa haft forystu í því að byggja upp eitt örlátasta velferðarkerfi heims, telja nú að Danir þurfi að lengja starfsævina. Á meðan verkalýðshreyfingin er sammála þessum viðhorfum hafa flokkarnir lengst til vinstri sett sig á móti þessum breytingum á almannatryggingakerfinu.

Danska lífeyriskerfið er byggt á þremur megin stoðum. Fyrsta stoðin er almannatryggingakerfið, sem hefur það hlutverk að tryggja öllum landsmönnum öryggi og þar með viðunandi lífeyri til að koma í veg fyrir fátækt. Önnur stoðin eru lífeyrissjóðir, sem byggja á atvinnutengdu kerfi, sem tryggir sanngjarnt viðmið milli atvinnutekna og lífeyris. Þriðja stoðin er síðan frjáls lífeyrissparnaður, sem kemur þá sem viðbót við hinar tvær stoðirnar.


Þýtt úr BBC-News.