Breytingar á vöxtum og útlánareglum Lífeyrissjóðsins Lífiðnar.

Stjórn Lífeyrissjóðsins Lífiðnar hefur ákveðið að frá og með 16. desember 2004, verði fastir vextir af nýjum lánum (A-lánum) Lífiðnar 4,20%. Vextir lána með breytilegum vöxtum (B-lán) lækka í 4,50% frá og með sama degi. Stjórn sjóðsins hefur einnig ákveðið að falla frá því að samningur um viðbótarlífeyrissparnað við séreignardeild sjóðsins sé skilyrði fyrir veitingu A-lána. Tryggingafræðileg staða sjóðsins er sterk.

Eftir sem áður verður það áfram skilyrði fyrir A-lánum að þau séu tryggð með fyrsta veðrétti. Stjórn sjóðsins álítur að lán þau sem sjóðurinn býður uppá og sveigjanleigir skilmálar þeirra séu álitlegur kostur fyrir fjármögnun fjárfestinga sjóðfélaga sem og endurfjármögnun eldri og óhagstæðari lána, þeirra sjóðfélaga sem eiga rétt á láni frá Lífiðn.

Um síðustu áramót átti sjóðurinn 6,4% eignir umfram skuldbindingar. Á þessu ári hafa birst nýjar tölur um auknar lífs- og örorkulíkur. Búið er að meta hve mikil áhrif þetta hefur á stöðu Lífiðnar miðað við fyrstu 8 mánuði ársins og er ljóst að sjóðurinn á enn verulegar eignir umfram skuldbindingar.