Breytingar á samkomulagi um sértæka skuldaaðlögun

Rétt fyrir jól var undirritað nýtt samkomulag um sértæka skuldaaðlögun og var það gert í samræmi við viljayfirlýsingu stjórnvalda, lífeyrissjóða, fjármálastofnana og Íbúðalánasjóðs frá 3. desember s.l.
Sértæk skuldaaðlögun er ætluð heimilum í alvarlegum skuldavanda og tilgangur hennar er að þau geti fengið skilvirka og varanlega lausn, þar sem skuldir og eignir eru lagaðar að greiðslugetu. Úrræðið byggir á lögum nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja.
Í framhaldi af setningu laganna í lok október 2009 gerðu Landssamtök lífeyrissjóða, Samtök fjármálafyrirtækja og Íbúðalánasjóður með sér samkomulag um verklagsregur um sértæka skuldaaðlögun. Landssamtök lífeyrissjóða undirrituðu samkomulagið með fyrirvara um samþykki einstakra lífeyrissjóða.

Í viljayfirlýsingu ríkisstjórnar, Landssamtaka lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja  frá 3. desember sl. var gert samkomulag um breytingu á sértækri skuldaaðlögun. Markmið breytinganna er að gera úrræðið þannig úr garði að það nýtist fleiri heimilum í skuldavanda. Nýtt samkomulag um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun var undirritað þann 22. desember með fyrirvara um heimild Samkeppniseftirlitsins. Helstu breytingar eru þessar:

1.    Aðgengi að úrræðinu er opnað með þeim hætti að greiðslugeta heimilis þarf að lágmarki að vera 70% af verðmæti húseignar, í stað 80% áður, á skuldaaðlögunartímabilinu sem er þrjú ár.  Eftir að skuldaaðlögun lýkur er gert ráð fyrir að greiðslugeta heimilis standi undir 100% af verðmæti húseignar.

2.    Ef heimili stendur ekki undir 100% greiðslugetu af húseign verður veitt biðlán sem er ekki er greitt af á skuldaaðlögunartíma og er biðlánið vaxta- og verðbótalaust á tímabilinu.

3.    Kveðið er á um innheimtu skulda sem tryggðar eru með lánsveði. Heimilt er að fresta innheimtu skuldar með lánsveði hjá lántaka á skuldaaðlögunartímabili. Er þá miðað við að lántaki hefji aftur greiðslur að lokinni skuldaaðlögun ef sýnt þykir að greiðslugeta hans verði viðunandi eftir að aðlögunartímabili lýkur. Innheimta láns, sem tryggt er með veði í fasteign sem er lögheimili þriðja manns, sem lántaka er um megn að greiða, takmarkast við greiðslugetu eigenda veðsins. Verður fullnustu ekki leitað fyrr en eign er seld, sé greiðslugeta eiganda ekki fyrir hendi, nema greiðsluvilji sé ekki til staðar þrátt fyrir greiðslugetu. Veðið stendur þá áfram til tryggingar kröfunni með verðbótum og vöxtum.

4.    Til að flýta úrvinnslu mála munu fulltrúar kröfuhafa sem eru aðilar að samkomulaginu koma á fót sameiginlegum vettvangi til að samræma vinnubrögð, leysa úr ágreiningi sem kann að skapast milli kröfuhafa og undirrita samninga um sértæka skuldaaðlögun.


Hér má nálgast samkomulagið í pdf-skjali.