Breyting á lögum er varða viðbótarlífeyrissparnað

Alþingi samþykkti nú fyrir jólahlé á störfum sínum að breyta tekjuskattslögum á þann veg að heimild til frádráttar iðgjalda í viðbótarlífeyrissparnað frá tekjuskattsstofni verði 2% í stað 4% næstu þrjú ár, þ.e. frá byrjun janúar 2012 til ársloka 2014. Lagasetningin kallar ekki á að breyta þurfi núgildandi samningum um viðbótarlífeyrissparnað, heldur ber launagreiðanda að tryggja að frjálst framlag launafólks í viðbótarlífeyrissparnað verði ekki umfram 2% af iðgjaldastofni. Launagreiðendur verða því að annast það verk að lækka sparnað launþegans niður í 2% af launum.

Mikilvægt er að launagreiðendur fylgi þessu eftir því ef sparnaður launþega fer upp fyrir 2% á tímabilinu janúar 2012 til árloka 2014 er fjárhæðin tvískattlögð. Iðgjald sem er umfram 2% er ekki frádráttarbært frá skattstofni og greiddur er tekjuskattur við út borgun á lífeyrisgreiðslum. Samkvæmt þessu hefur val um sparnaðarform verið takmarkað þar sem viðbótarlífeyrissparnaður umfram 2% er ekki hagkvæmur á umræddu tímabili. Því má segja að forsenda fyrir sparnaði umfram 2% á tímabilinu sé brostin. Skattalöggjöfin gerir það ekki fýsilegt að spara með þessum hætti umfram 2% af launum á árunum 2012-2015.

Að óbreyttum nýsamþykktum lögum verður heimild til frádráttar iðgjalda í viðbótarlífeyrissparnað frá tekjuskattsstofni hækkuð á ný í 4% frá og með árinu 2015. Æskilegt væri að launagreiðendur héldu utan um það á markvissan hátt hjá hverjum sparnaðurinn hefur verið skertur tímabundið til að geta tryggt að sparnaðurinn hefjist að nýju til samræmis við
fyrirliggjandi samninga vegna launa fyrir janúar 2015.

Auglýsing