Belgum ætlað að vinna lengur

Í Belgíu hefur verið unnið að breytingum á lífeyriskerfinu sem er ætlað að draga úr snemmtöku lífeyris. Almennur lífeyristökualdur í Belgíu er 65 ár og er hinn sami fyrir bæði kyn. Möguleiki hefur verið til snemmtöku lífeyris frá 60 ára aldri, það er að því gefnu að sýnt sé fram á atvinnuþátttöku í 35 ár. Raunin er aftur sú að fólk er að jafnaði að láta af störfum við 58 ára aldur. Ástæðan fyrir þessu er sú að samkvæmt ákvæðum kjarasamninga greiða atvinnurekendur uppbætur ofan á atvinnuleysisbætur til þeirra sem sagt er upp störfum eftir 60 ára aldur, að því gefnu að þeir geti sýnt fram á ákveðinn starfsaldur, 30 ár fyrir karlmenn og 26 ár fyrir konur.

Þessi mörk voru hækkuð frá 1. janúar 2012 í 35 ár fyrir karlmenn og hlutfallslega með sama hætti fyrir konur á tímabilinu 2012 til 2028. Ákvæði voru í samningum um að aðilar geti fengið slíkar uppbætur allt niður í 50 ára aldur ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi s.s. endurskipulagning fyrirtækja, næturvinnu eða líkamlega erfið störf.

Nú hefur þessum reglum verið beytt og aldur til snemmtöku lífeyris hækkaður úr 60 ára í 62 ára auk þess sem skilyrði er gert um 40 ára atvinnuþátttöku í stað 35 ára áður. Jafnframt eru greiðslur sem atvinnurekendur þurfa að greiða hækkaðar um helming en þessum breytingum er ætlað að draga úr snemmtöku lífeyris. Samhliða þessu eru gerðar kröfur til fyrirtækja með 20 starfsmenn og fleiri að vera með ákveðið prógram þar sem hugað er að hagsmunum þeirra sem eru 45 ára og eldri. Ef um er að ræða hópuppsagnir hjá fyrirtækjum verður að dreifa uppsögnum jafn niður á aldurshópa og sett bann við uppsögn eldri starfsmanna.

Einnig eru settir innbyggðir hvatar í gegnum skattalöggjöfina sem ætlað er að seinka lífeyristöku. Þannig fer skattsprósentan lækkandi eftir því sem lífeyrisþegar eru eldri.

Breytingarnar hafa sætt mótmælum en með þeim er ætlunin að taka nokkuð stór skref. Framtíðin á eftir að leiða í ljós hvort tilgangi stjórnvalda verði náð sem er að halda fólki lengur á vinnumarkaði og draga úr snemmtöku lífeyris. 

 

ipe.com