Belgískir sjóðir töpuðu 25% árið 2008.

Belgískir lífeyrissjóðir skiluðu neikvæðri ávöxtun sem var að jafnaði um 25,2% árið 2008, samkvæmt niðurstöðum sem útibú Mercers ráðgjafaþjónustunnar í Brussel hefur gefið út. Athugun Mercers á fjárfestingum lífeyrissjóða byggir á greiningu 89 virkra sjóða sem eru 60% þeirra 150 sjóða sem eru virkir í Belgíu.

Willy Santemans, forsvarsmaður hjá Mercer í Brussel, segir afkomu sjóðanna litast mjög af neikvæðri þróun á hlutabréfamörkuðum. Samkvæmt niðurstöðum Mercer viðhéldu lífeyrissjóðirnir í meginatriðum eignasöfnum sínum á árinu 2008, þó þannig hlutfall fjárfestinga í hlutabréfum minnkaði um 8,6% og hlutfall fjárfestinga í skuldabréfum jókst um 10,13%. Meginástæða þessarar breytingar skýrist af mismunandi ávöxtun, þannig að þegar tekið hefur verið tillit til þess má samkvæmt Mercer greina lítils háttar tilfærslu úr skuldabréfum og skammtímabréfum yfir í hlutabréf. Santeman segir þessa frammistöðu valda vonbrigðum einnig þegar horft er til lengri tíma. „Meðal ávöxtun  síðustu 5 ára var 1,1%  og 1% síðustu 10 ár en 4% ef horft er til síðustu 15 ár,” segir hann.

“Fjármálaþróunin undanfarið endurspeglar aukna fagmennsku við stjórn lífeyrissjóða, einkanlega á sviði fjárfestingastefnu og ber að skoða í ljósi þess umboðs sem forstöðumenn eignastýringa hafa,” segir Thierry Loloux yfirmaður eftirlaunamála hjá fyrirtækinu.  Athugun Mercer sýnir verri niðurstöðu en hjá Samtökum belgískra lífeyrissjóða sem kynnt var fyrr í mánuðinum og sýndi að belgískir lífeyrissjóðir hefðu skilað ávöxtun sem var neikvæð um 20,5% árið 2008.


Frétt úr IPE 20.febrúar s.l.