Í samtali við Mbl. segir Gunnar Baldvinsson formaður Landssamtaka lífeyrissjóða stefna í góða raunávöxtun lífeyrissjóða árið 2013. Fer þó ekki yfir ávöxtunina 2012.
Ávöxtun einstakra lífeyrissjóða árið 2013 liggur ekki fyrir, en Gunnar segir allt benda til að ávöxtunin verði almennt góð. Hann vill ekki nefna neinar tölur en segir að búast megi við að meðaltal sjóðanna verði yfir vaxtaviðmiði þeirra annað árið í röð.
Viðmið um raunávöxtun er 3,5% en meðalávöxtunin árið 2012 var 7,3%. Að sögn Gunnars er þó ólíklegt að ávöxtunin fari yfir þá tölu að jafnaði. Það geti gerst hjá einstaka sjóðum, enda sé eignasamsetning þeirra mismunandi. Gunnar segir ýmsar tölur af markaðnum styðja það að ávöxtun sjóðanna verði góð. Þannig hafi úrvalsvísitala hlutabréfa hækkað um 18,9% á árinu 2013 og heildarvísitalan um 27,9%. Þá hafi heimsvísitala hlutabréfa hækkað um rúm 13% í íslenskum krónum.
„Búast má við að skuldabréf lífeyrissjóðanna, sem eru metin á kaupkröfu, hafi hækkað um rúm 7% á árinu. Séreignarsjóðir meta skuldabréf á markaðsverði. Skuldabréf þeirra hækkuðu minna vegna hækkunar á ávöxtunarkröfu á markaði," segir Gunnar og tekur sem dæmi að ríkisskuldabréfavísitala Gamma hafi hækkað um rúm 3% á árinu.