Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur fengið til meðferðar tillögur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga að nýjum lífslíkutöflum fyrir þjóðina, spálíkani þar sem gert er ráð fyrir því að meðalævi Íslendinga haldi áfram að lengjast. Beðið er viðbragða ráðuneytisins en á vettvangi lífeyrissjóða landsins hefur verið fjallað um málið undanfarna mánuði og auknar lífslíkur voru af þessu gefna tilefni umfjöllunarefni stefnumótunarfundar Landssamtaka lífeyrissjóða 6. september sl.
Auðvitað er gleðiefni í sjálfu sér að fólk lifi lengur en það kallar jafnframt á að brugðist sé við þeim framtíðarhorfum að þjóðin eldist hlutfallslega og færri og færri vinnandi hendur standi undir velferðarkerfi hennar. Ragnheiður Helga Haraldsdóttir, sérfræðingur í áhættustýringu hjá Brú lífeyrissjóði, var fyrsti framsögumaður á stefnumótunarfundinum og orðaði viðfangsefnið þannig efnislega:
Skipaður var vinnuhópur innan Landssamtaka lífeyrissjóða um mótvægisaðgerðir vegna hækkandi lífaldurs. Þar hefur verið fjallað um möguleg viðbrögð og áhrif gagnvart eftirlaunafólki og áunnum réttindum og framtíðarréttindum sjóðfélaga. Sömuleiðis er fjallað um áhrif á tryggingafræðilega stöðu sjóðanna, það er að segja hvernig eignir standi gagnvart framtíðarskuldbindingum við sjóðfélaga.
Ragnheiður sagði að næstu skref yrðu samtal við hagsmunasamtök á vinnumarkaði og stjórnvöld um útfærslu breytinga sem víðtæk sátt yrði að nást um. Þá þyrfti að fjalla um mögulegar breytingar á lögum og samþykktum sjóðanna og síðast en ekki síst að undirbúa kynningu og fræðslu gagnvart almenningi.
Sýn þátttakenda í pallborðsumræðum á stefnumótunarfundinum var býsna ólík, einkum þegar hlýtt var á fulltrúa BSRB og Bandalags háskólamanna annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, sagði að legið hefði fyrir um skeið að ráðast yrði í heildarendurskoðun lífeyrismála. Drög að nýju skipulagi lægju á borði fjármálaráðherra og þar væri auðvitað allt undir. Í BSRB væru allir meðvitaðir um að bregðast þyrfti við auknum lífslíkum með tilheyrandi áskorunum en að margar leiðir væru til að bregðast við: „Mér finnst ekki blasa við að sátt verði um það í okkar hópi að lausnin sé sú að hækka viðmiðunaraldur lífeyristöku af því margar aðrar leiðir eru færar.“
Friðrik Jónsson, formaður BHM, sagði að vinnuhópur innan bandalagsins liti til margra þátta varðandi lífeyrissjóði og lífeyrissjóðakerfið, allir sem hlut ættu að máli yrðu að sinna vel heimavinnunni til að ná sem mestri sátt. Fyrir margt fólk væri fjarlægt að ræða það sem tryggingastærðfræðingar legðu nú til sem viðbrögð við einhverju sem gerðist eftir þrjá til fjóra áratugi með hækkandi lífaldri. Hann sagði að umbjóðendur sínir ætti það inni að „hin kerfislægu lífeyrismál yrðu tekin til gagngerrar endurskoðunar, þar með talið að ræða rekstarkostnað lífeyrissjóðakerfisins í lágvaxtaumhverfi.“
Þórir Gunnarsson, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, sagði að hækkandi lífaldur hefði ekki verið ræddur sérstaklega í röðum sinna samtaka nýlega heldur hefði verið fjallað mun meira um samræmingu lífeyrisréttinda á vinnumarkaðnum. Augljóst væri samt að bregðast yrði við hækkandi lífaldri. Hann velti því upp hvort fleira ætti að koma við sögu í lífslíkuspám en nú gerist, svo sem menntun, starfsstéttir, kynjahlutföll og búseta. Sömuleiðis væri ástæða til að ræða það að ríkið kæmi meira að því að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða.
Gunnar Björnsson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sagði að huga yrði að samræmingu innan sjálfs lífeyrissjóðakerfisins. Samtryggingin væri til dæmis ekki eins útfærð hjá öllum sjóðum og það gæti skipt máli við að velja leiðina sem farin yrði. Sumir sjóðir miði þannig við 56% ævitekjur en aðrir við 76%. Þá sagði hann að lítið hefði verið fjallað um skattahlið málsins og hún skipti miklu máli varðandi það hvernig kerfi skatta, lífeyrissjóða og almannatrygginga spiluðu saman. Þetta væri eitt þeirra atriða sem horfa yrði til að mati ríkisvaldsins.
Hannes G. Sigurðsson, ráðgjafi SA, lýsti eigin reynslu af lífeyrissjóðakerfinu í Svíþjóð og sagði að þar væru hlutirnir einfaldir en „á Íslandi flækjum við málið rosalega með þeim afleiðingum að okkur tekst ekki að ákveða nauðsynlegar breytingar.“ Hann kvaðst hafa skrifað skýrslu fyrir SA um hækkandi lífaldur árið 2007 og fjallað um nákvæmlega sama viðfangsefni og í pallborðsumræðum dagsins. Ekkert hefði gerst síðan þá nema hvað margar stórar nefndir hefðu skilað þykkum skýrslum sem fengið hefðu að rykfalla og stjórnmálamenn ýtt öllu til hliðar, enda ekki til atkvæðaveiða fallið að hækka lífeyristökualdur: „Við höfum farið sorglega illa með tímann. Hér er talað um heildarendurskoðun lífeyrissjóðakerfisins í 20-25 manna nefnd. Ég spái því að út úr því komi nákvæmlega ekki neitt.“
Umræðustjórinn, Vilhjálmur Egilsson, kvaðst í lokin ekki skynja af umræðunni við pallborðið að mikið myndi gerast næstu ár og áratugi í því sem um var rætt! Samt lægju spár um lífslíkur fyrir og spurningin væri sú hvort „við eigum að vera einu skrefi á undan eða eftir“ til að bregðast við.“
Ávöxtun lífeyrissjóða væri í heild sinni góð nú um stundir og flestir þeirra ofan við strikið en ekki undir því. Hins vegar ætti að gera ráð fyrir því að ávöxtunin yrði lakari á næstu árum og þá yrði að ákveða viðbrögð í samræmi við gildandi lög ef við blasti að verðmæti eigna rýrnuðu þannig að þær stæðu ekki undir skuldbindingum.
Hér má nálgast framsöguerindi frá stefnumótunarfundinum: