Arnar Sigurmundsson kjörinn formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.

Á fjölmennum aðalfundi í dag var endurkjörið í stjórn samtakanna. Í stjórninni eiga sæti: Arnar Sigurmundsson, Friðbert Traustason, Gunnar Baldvinsson, Haukur Hafsteinsson, Margeir Daníelsson, Víglundur Þorsteinsson, Þorbjörn Guðmundsson og Þórunn Sveinbjörnsdóttir. Stjórnin kom saman eftir aðalfundinn og var Arnar Sigurmundsson kosinn formaður samtakanna og Haukur Hafsteinsson, varaformaður. Friðbert Traustason, þáverandi formaður gaf ekki kost á sér, en hann hefur verið formaður LL s.l. þrjú ár. Var honum þökkuð vel unnin störf.

Í ræðu fráfarandi formanns, Friðberts Traustasonar, kom fram að af og til hafa spunnist umræður um það í fjölmiðlum og á Alþingi, hvort nauðsynlegt væri að afnema verðtryggingu á lánum.

Að mati Friðberts væri þessi umræða á villigötum. Það væri væri alveg ljóst að afnám verðtryggingar væri mun dýrari fyrir látakendur en verðtrygging þegar til lengri tíma er litið. Lánveitandinn mundi ávallt bæta við vextina sérstöku óvissuálagi vegna verðbólgunnar og reynslan erlendis hefur sýnt að þetta álag getur verið býsna hátt. Afnám verðtryggingar mundi skerða eftirlaun lífeyrissjóðanna í framtíðinni.

 Vitnaði Friðbert í skýrslu Tryggvar Herbertssonar, sem hann vann fyrir Landssamtök lífeyrissjóða á árinu 2004, þar sem kom fram að ef um mikinn óstöðugleika væri að ræða í efnahagslífinu og tíð óvænt verðbólguskot þá væri líklegra að skuldunautar hagnist á því að verðtrygging sé afnumin, en að skuldunautar tapi aftur á móti ef stöðugleiki og jöfn verðbólga ríkja. Þá væri ekki ljóst hvað kæmi í stað verðtryggingar sem grunnur að vöxtum á langtímalánum ef verðtryggingin yrði afnumin. Afnám verðtryggingar gæti einnig aukið óvissu lífeyrisþega hvað varðar kaupmátt lífeyris. Skuldbindingar sjóðanna væru þannig verðtryggðar og ef tryggingin yrði afnumin væri ljóst að hætta gæti skapast á misgengi milli eigna og skuldbindinga, því ljóst væri að afnám verðtryggingar myndi hafa mikil áhrif á eignir íslensku lífeyrissjóðanna og þar með á eftirlaun sjóðfélaga.

Þá taldi Friðbert eðlilegt að sjóðfélagar greiði skatta af sínum lífeyri þegar hann færi umfram skattfrelsismörk eins og þeir sem atvinnutekna njóta. Sjóðfélagar hafi notið skattfrelsis vegna iðgjalda sinna til lífeyrissjóðanna og atvinnurekendur einnig í sínum rekstri vegna mótframlaga þeirra. Aftur á móti hljóti að vera umhugsunarvert með tilliti til þróunar á atvinnumarkaði að auðvelda ölduðum og örykjum atvinnuþátttöku eins og unnt væri og þá kæmu til álita skatthvatar af ýmsum toga. Í dag væri öldruðum og örykjum refsað harðlega af almannatryggingum dirfðust þeir til þátttöku á vinnumarkaði eftir að taka eftirlauna er hafin.

Í lok ræðunnar vék Friðbert af samspili bóta lífeyrissjóðanna og almannatrygginga og taldi að þessu samspili yrði einfaldlega að breyta með því að hækka verulega neðra tekjumark, þ.e. frítekjumark tekjutryggingar ellilífeyrisþega. Þannig mætti bæta afkomu eldri borgara og sannfæra landsmenn enn og aftur um nauðsyn þess að viðhalda sjóðamyndum, samtryggingu og skylduaðild að lífeyrissjóðum.

Sjá ræðu Friðberts Traustasonar.