Arnar Sigurmundsson endurkjörinn formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.

Á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða, sem haldinn var í dag, var Arnar Sigurmundsson frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja endurkjörinn formaður samtakanna.  Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, kom í stjórnina í stað Víglundar Þorsteinssonar, sem gaf ekki kost á sér. 

Arnar Sigurmundsson kom víða við í ræðu sinni og nefndi m.a. eftirfarandi:

Góð ávöxtun lífeyrissjóðanna á síðasta ári.
Segja má að árið 2006 hafi verið íslenskum lífeyrissjóðum mjög hagstætt. Er þetta fjórða árið í röð þar sem meðal raunávávöxtun þeirra er yfir 10%. Við megum þó ekki gleyma því að árin 2000-2002 voru sjóðunum erfið og árleg raunávöxun þeirra var á því árabili  neikvæð að meðaltali um rúm 2%. Landssamtök lífeyrissjóða áætla að raunávöxtun sjóðanna hafi að meðaltali numið 10,6% á árinu 2006.  Ef litið er til lengri tíma eða síðustu 5 ára nemur raunávöxtunin 8,3%, sem er hæsta  5 ára meðaltal síðan skipulegar mælingar á ávöxtun sjóðanna hófust árið 1991. Ef skoðað er meðaltal síðustu 10 ára nemur árleg raunávöxtun lífeyrissjóða liðlega 6,5% að meðaltali, sem er sem því næst nákvæmlega sama tala og árleg raunávöxtun sjóðanna allt frá árinu 1991. Allar þessar tölur bera rekstri og ávöxtun lífeyrissjóðanna gott vitni.

Styrkja þarf Fjármálaeftirlitið
Hvað snertir hið ágæta starf sem Fjármálaeftirlitið vinnur að, þá er það skoðun samtakanna að styrkja beri starfsemi eftirlitsins og gera það enn skilvirkara en nú er. Landssamtök lífeyrissjóða eru þeirrar skoðunar að gott samstarf FME við hagsmunasamtök eftirlitsskyldra aðila sé nauðsynlegt til að að FME geti sinnt enn frekar og betur eftirlitshlutverki sínu við þær aðstæður sem nú ríkja á fjármálamarkaðinum.  Þá er nauðsynlegt að þannig sé búið að Fjármálaeftirlitinu að það sé talið eftirsóknarvert fyrir gott starfsfólk að sinna þar störfum, án þess að vera yfirboðið í launakjörum af fyrirtækjum á fjármálamarkaði. Viðurkennt er að helsti auður fyrirtækja sé mannauðurinn sem byggir á vel menntuðu og ánægðu starfsfólki með góða starfsreynslu og starfskjör. Miðað við umfang fjármálakerfisins hér á landi á sú staðreynd ekki síður við gagnvart starfsfólki FME. 

Yfirtökunefndin þarf að beita skilvirkari úrræðum
Eignarhaldsfélag lífeyrissjóða að Kauphöll Íslands er meðal stofnaðila að sérstakri yfirtökunefnd sem sett var á laggirnar með víðtækri þátttöku þeirra sem hagsmuna hafa að gæta á fjármagnsmarkaði. Arnar vék  að þátttöku lífeyrissjóðanna og aðkomu þeirra að yfirtökunefndinni sem nokkuð hefur verið í fréttum í tengslum með viðskipti með hlutabréf í Glitni h.f.

Fyrir liggur að nefndin hefur unnið merkt starf við ráðgjöf í tengslum við viðskipti á hlutabréfamarkaði. Það urðu því okkur sem vinnum á vettvangi lífeyrissjóðanna nokkur vonbrigði að lesa yfirlýsingu formanns nefndarinnar,  sem gefin var í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Glitni, að tveir ótilgreindir aðilar hafi hafnað að veita nefndinni upplýsingar sem tengdust fyrrgreindum viðskiptum. Samkvæmt yfirlýsingu nefndarinnar var viðkomandi máli vísað til Fjármálaeftirlitsins á grundvelli takmarkaðra upplýsinga og tímahraks.
 
Það er grundvallaratriði fyrir heilbrigði fjármagnsmarkaðarins og jafnframt fyrir trúverðugleika yfirtökunefndarinnar að hún beiti þeim úrræðum sem henni voru fengin við stofnun. Yfirtökunefndin á að birta opinberlega nöfn þeirra aðila sem með einhverjum hætti leggja stein í götu nefndarinnar, hvort heldur með skorti á upplýsingagjöf eða með því að láta ekki ná í sig og þannig komast hjá því að veita nefndinni upplýsingar.

Hiki nefndin við að beita þessu grundvallarúrræði, sem kann að vera harkalegt, en sem engu að síður felst í víðtækum stuðningi markaðsaðila, er nefndin bitlaus. Að ætla henni hlutverk með lögum eins og nefnt hefur verið af fjölmiðlum og af stöku stjórnmálamönnum er þarflaust. Þar með hverfur möguleikinn fyrir skjótar niðurstöður í álitamálum á hraðskreiðum fjármálamarkaði. 

Auka þarf fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða
Alþingi hefur nú samþykkt lög um starfstengda eftirlaunasjóði, sem byggir á tilskipun Evrópusambandsins. Tilskipunin gildir um stofnanir fyrir starfstengdan lífeyri, þ.e. stofnanir sem taka við iðgjöldum til myndunar og útgreiðslu lífeyrisréttinda, starfa á sjóðmynduðum grunni og eru aðskildar frá þeim fyrirtækjum sem greiða iðgjöld til þeirra. Starfsemi íslensku lífeyrissjóðanna um móttöku lögbundinna iðgjalda fellur undir reglugerð Evrópubandalagsins nr. 1408/71 og því ekki undir umrædda tilskipun. Móttaka viðbótariðgjalda kunna hins vegar að falla undir ákvæði tilskipunarinnar, að því tilskyldu að þau séu starfstengd og valkvæð. 

Í skýrslu nefndar á vegum forsætisráðherra frá því í október 2006 um alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi, er sérstaklega vikið að möguleikum á því að skapa umhverfi fyrir starfsemi lífeyrissjóða á Íslands sem væru í stakk búnir til að bjóða fjölþjóðlegum fyrirtækjum þjónustu sína. Í því sambandi er sérstaklega vísað í umrædda Evróputilskipun í lífeyrismálum. Til þess að koma slíkri markaðssetningu við þyrfti að fara yfir íslensku lífeyris- og skattalöggjöfina og samræma hana evrópsku lífeyristilskipuninni, enda er afar nauðsynlegt að öll lagaumgjörð í tengslum við neytendavernd og skattareglur sé ásættanleg.

Eins og áður hefur komið fram fellur meginstarfsemi íslenskra lífeyrissjóða utan gildissviðs tilskipunarinnar. Engu að síður má færa fyrir því gild rök að eðlilegt sé að ætla lífeyrissjóðum á Íslandi sama svigrúm til fjárfestinga og þeim lífeyrissjóðum sem koma til með að falla undir lögin um starfstengda lífeyrissjóði.

Arnar sagði  það  ekki sannfærandi að veita þeim lífeyrissjóðum sem sinna innlendri starfsemi takmarkaðri fjárfestingarheimildir en öðrum lífeyrissjóðum sem munu mögulega reka starfsemi sína hér á landi og þjónusta fyrirtæki og einstaklinga annars staðar á EES-svæðinu. Eins má benda á að það þurfi að vera mjög sterk rök fyrir því að takmarka fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða umfram þau mörk sem sett eru í tilskipun ESB um starfstengda lífeyrissjóði. Munu Landssamtök lífeyrissjóða koma þessum sjónarmiðum samtakanna á framfæri við stjórnvöld.

 

Sjá hér ræðuna í heild sinni.