Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða samþykkti á fundi sínum í dag ályktun þar sem fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar í skattlagningu á eignir lífeyrissjóðanna er harðlega mótmælt og öðrum auknum álögum sem koma til með að skerða lífeyrisgreiðslur úr almennu sjóðunum. Ályktunin er svohljóðandi:
"Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða mótmælir harðlega hvers konar nýjum álögum á starfsemi lífeyrissjóða, hvort sem þær eru í formi hækkunar á gjaldtöku eða með nýjum sköttum.
Stjórnvöld ætla að leggja á sérstakan 0,0814% eignarskatt á heildareignir samtryggingahluta lífeyrissjóða vegna áranna 2012 og 2013. Jafnframt ætla stjórnvöld að lækka frádráttarbært iðgjald til
viðbótarlífeyrissparnaðar úr 4% í 2% næstu þrjú árin.
Þá hefur undanfarna daga verið greint frá áformum um verulega hækkun gjaldtöku til að standa undir rekstri Fjármálaeftirlitsins og embættis umboðsmanns skuldara á árinu 2012. Einnig voru uppi áform um sérstakan 10,5% fjársýsluskatt á starfsemi lífeyrissjóða, sem reyndar hefur vegna mikillar andstöðu nú verið
horfið frá.
Gangi þessi áform stjórnvalda eftir er ljóst að þau munu auka álögur og kostnað lífeyrissjóðanna og hafa þau áhrif að lífeyrisgreiðslur munu lækka til sjóðfélaga, sem eru eigendur sjóðanna."
Reykjavík, 13. desember 2011