Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar Króata við breytingu á lífeyriskerfinu

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) varar króatísk stjórnvöld við að afnema nýlegar endurbætur á lífeyriskerfi landsins og segir að slíkt muni hafa víðtæk og neikvæð áhrif á efnahagskerfi landsins. Króötum hefur gengið illa að laga fyrirkomulag sitt í lífeyrismálum, sem á rætur að rekja til sósíalísks efnahagskerfis fyrrum Júgóslavíu, að opnu markaðshagkerfi. Eftir fall Júgóslavíu fjölgaði lífeyrisþegum mjög og fjórði hver vinnandi maður varð atvinnulaus. Almenningur glataði trausti á lífeyriskerfinu og kerfið varð leiksoppur stjórnmálamanna og þrýstihópa. Árið 2002 var skilvirkara og gagnsærra kerfi tekið upp samhliða hinu eldra og kveðið á um skylduaðild fólks undir fertugu. Þeir sem eldri voru máttu vera áfram í eldra kerfinu.

Ivo Sanader, forsætisráðherra Króatíu, sagði í mars síðastliðinum að nýja lífeyriskerfið væri „misheppnað“ og ýjaði að því að ríkisstjórnin vildi leyfa fólki að flytja sig úr því.  Ýmislegt bendir samt til þess að forsætisráðherrann hafi í fyrsta kasti einungis hótað þessu til að „ýta málinu á flot“ og kanna viðbrögðin en aðrir telja ummælin vera til marks um öryggisleysið sem einkenni lífeyriskerfi Króata.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir í nýrri skýrslu um Króatíu að stjórnvöld þar eigi að „forðast allar breytingar á nýja lífeyriskerfinu enda geti slíkt haft ógnvænleg áhrif á fjármagnsmarkaðinn, sem stendur illa fyrir, auk þess að skapa vantraust meðal fjárfesta.“

Eignir lífeyrissjóðanna í nýja kerfinu í Króatríu svara til 8% af þjóðarframleiðslunni. Árið 2008 töpuðust um 60% verðmæta á króatískum hlutabréfamarkaði og lífeyrissjóðir fóru illa út úr því hruni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri sérfræðingar krefjast þess að lífeyrisiðgjöld verði hækkuð til að styrkja lífeyriskerfið og sjóðurinn hvetur einnig Króata til umbóta í eldra kerfinu til að tryggja að það standi undir heildarskuldbindingum sínum til framtíðar.

 

Byggt á frétt IPE.com

 

]