Alþingi samþykkir veigamiklar breytingar á lífeyrissjóðalögunum.

Rétt fyrir jólaleyfi þingmanna voru samþykktar nokkrar veigamiklar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Margar þessara breytinga voru samþykktar að tilstuðlan Landssamtaka lífeyrissjóða, svo sem að þeir sem náð hafa 60 ára aldri verði nú heimilt að taka út séreignarsparnað sinn í einu lagi í stað þess að dreifa greiðslu á sjö ár eins og nú er.

Nálgast má lögin hér.

Helstu breytingar laganna eru þessar:·       

  •         Þeim sem náð hafa 60 ára aldri verði heimilt að taka út séreignarsparnað sinn í einu lagi í stað þess að dreifa greiðslu á sjö ár eins og nú er.
  •         Ekkert aldurshámark verði á því hvenær einstaklingur getur hafið töku lífeyris. Í gildandi lögum er það hámark bundið við 75 ára aldur.
  •         Lífeyrissjóður skal hafa í þjónustu sinni starfsmann sem staðist hefur próf í verðbréfaviðskiptum. Tekur gildi 1. janúar 2011.
  •         Lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta fyrir allt að 20% af hreinni eign sinni í verðbréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði. Í gildandi lögum er umrætt hlutfall 10%.
  •         Lögfestar verði samræmdar reglur um fjárfestingastefnu þeirra aðila sem hafa heimild til að taka við séreignarlífeyrissparnaði. í gildandi lögum er slíkur sparnaður í vörslu lífeyrissjóða háður sömu takmörkunum varðandi fjárfestingar og samtryggingarsparnaður á meðan aðrir vörsluaðilar hafa ótakmarkað frelsi til að móta fjárfestingarstefnu sína.  Allir vörsluaðilar séreignarlífeyrissparnaðar verði bundnir tilteknum lágmarksskilyrðum varðandi fjárfestingar. Tekur þó ekki gildi fyrr en 1. janúar 2010.
  •         Munur á eignarliðum og framtíðarskuldbindingum, miðað við tryggingafræðilega athugun í lok árs 2008, geti verið neikvæður um allt að 15% í stað 10% samkvæmt gildandi lögum án þess að skylt verði að skerða réttindi eða hækka iðgjald. Þetta ákvæði er sett til bráðabirgða.
  •         Lífeyrissjóði er heimilt að eiga allt að 20% af hlutafé í samlagshlutafélögum til 31. desember 2013.