Nýlega féll dómur í Hæstarétti í máli Almenna lífeyrissjóðsins gegn Glitni banka hf. Fimm hæstaréttardómarar dæmdu í málinu og féll dómur Almenna lífeyrissjóðnum í vil. Með dómi Hæstaréttar var úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. apríl 2011 hnekkt. Glitnir banki þarf einnig að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Málavextir eru þeir að Almenni lífeyrissjóðurinn fjárfesti fyrir milligöngu Glitnis banka hf. hlutdeild í tveimur millilagssjóðum (mezzanine funds) af ICG (Intermediate Capital Group). Millilagslán til fyrirtækja liggja á milli hefðbundinna skuldabréfa og hlutabréfa. ICG er stærsti óháði lánveitandi millilagsfjármögnunar í Evrópu. Almenni lífeyrissjóðurinn var, ásamt fleiri fjárfestum, meðfjárfestir með Glitni banka hf. samkvæmt sérstökum samningi sem gerður var við bankann og ICG var upplýst um. Þegar Glitnir féll í október 2008 óskaði lífeyrissjóðurinn eftir því að færa hlut sinn yfir á sitt nafn. ICG samþykkti þá beiðni en slitastjórn Glitnis hafnaði því. Slitastjórn Glitnis hafnaði einnig sértökukröfu sem Almenni lífeyrissjóðurinn gerði í þrotabú Glitnis og var málinu vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði kröfu Almenna lífeyrissjóðsins. Sjóðurinn kærði úrskurðinn til Hæstaréttar.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar er Glitni banka skylt að ljá nauðsynlegan atbeina að því gagnvart ICG sjóðunum að hlutur Almenna lífeyrissjóðsins í ICG sjóðunum verði skráður á nafn hans. Glitnir banki skal einnig greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Dóm Hæstaréttar má lesa hér.
Almenni lífeyrissjóðurinn taldi alla tíð talið að eignarréttur sjóðsins í ICG sjóðunum væri mjög skýr og ekki væri ástæðu til að endurmeta eignir í sjóðunum vegna þessa máls. Dómur Hæstaréttar staðfestir þetta álit stjórnenda sjóðsins. Lögmaður Almenna lífeyrissjóðsins var Ólafur Gústafsson, hrl.