Almenni býður bæði óverðtryggð og verðtryggð lán

Almenni lífeyrissjóðurinn býður nú sjóðfélögum sínum upp á óverðtryggð veðlán og gerir um leið umtalsverðar breytingar á útlánum sínum. Fyrirkomulag lána breytist og vextir lækka bæði á nýjum lánum og hluta áður veittra lána, samkvæmt ákveðnum viðmiðum, segir í tilkynningu sjóðsins.

Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins hefur ákveðið gera talsverðar breytingar á útlánafyrirkomulagi sjóðsins. Tilgangurinn með breytingunum er að sögn forsvarsmanna að fjölga lánamöguleikum fyrir sjóðfélaga og bjóða samkeppnishæf kjör.

Sjóðfélagar geta frá og með  15. september 2013 valið um að taka óverðtryggt lán eða verðtryggt lán tengt neysluverðsvísitölu. Vextir óverðtryggðra lána verða festir til eins árs í senn en til að byrja með  verða þeir 7,5%.

Hámarkslán hefur verið hækkað úr 35 í 50 milljónir en skilyrði fyrir þeirri fjárhæð er að lánið sé á fyrsta veðrétti og veðhlutfall ekki hærra en 75% af markaðsverði. Ef ekki er um fyrsta veðrétt að ræða er hámarkslán 35 milljónir og hámarks veðhlutfall 65%.

Svokallað vaxtagólf verðtryggðra lána með breytilega vexti hefur verið afnumið en það hefur verið 3,75%. Vextir taka mið af meðalávöxtun síðasta almanaksmánaðar á skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði (HFF150434). Álag á vaxtaviðmið er hækkað úr 0,50% í 0,75% á nýjum lánum með breytilega vexti.  Við þetta lækka breytilegir vextir verðtryggðra lána í 3,06%.

Lán þeirra sjóðfélaga sem tóku lán með föstum vöxtum og bera hærri vexti en 4,20% verða lækkuð í 4,20%.  Breytingin tekur til gjalddaga sem falla til eftir 15. nóvember nk. samkvæmt yfirlýsingu stjórnar. Þetta er gert án tilkostnaðar sjóðfélaga.