Í sameiginlegri fréttatilkynningu frá stjórnarformönnum Lífeyrissjóðs Austurlands og Lífeyrissjóðs Norðurlands segir að á stjórnarfundum Lífeyrissjóðs Norðurlands og Lífeyrissjóðs Austurlands, sem haldnir voru í vikunni, hafi verið ákveðið að hefja formlegar viðræður um sameiningu sjóðanna.
Í viljayfirlýsingu stjórna lífeyrissjóðanna í upphafi þessa árs var ákveðið að athuga möguleika á sameiningu sjóðanna. Markmið með sameiningu væri að auka hagkvæmni í rekstri, bæta áhættudreifingu og ávöxtun eigna og hámarka með þeim hætti lífeyrisréttindi sem sameinaður sjóður gæti veitt sjóðfélögum sínum. Viðræður hafa legið niðri um nokkra mánaða skeið en hafa nú verið teknar upp að nýju.
Í viljayfirlýsingunni frá því um síðustu áramót var tekið fram að markmið með sameiningu væri að auka hagkvæmni í rekstri, bæta áhættudreifingu og ávöxtun eigna og hámarka með þeim hætti lífeyrisréttindi sem sameinaður sjóður gæti veitt sjóðfélögum sínum.
Félagssvæði Lífeyrissjóðs Austurlands nær yfir allt Austurland frá Bakkafirði í norðri til Hornafjarðar í suðri og félagssvæði Lífeyrissjóðs Norðurlands nær frá Hrútafirði í vestri til Þórshafnar í austri. Félagssvæði sameinaðs sjóðs mun því ná til allra byggðakjarna á Norður- og Austurlandi.
Ef af sameiningunni verður mun hinn nýji sjóður verða 5. stærsti lífeyrissjóður landsins með eignir sem voru um síðustu áramót um 70 milljarðar króna.