Afkoma Gildis kynnt á ársfundi - Fjárfestingartekjur neikvæðar um 34 milljarða árið 2008.

Afkoma Gildis-lífeyrissjóðs árið 2008 var kynnt á fjölmennum ársfundi s.l.þriðjudag. Helstu niðurstöður uppgjörsins eru þessar:  

  • Nafnávöxtun sjóðsins var neikvæð um 14,8%, raunávöxtun var neikvæð um 26,7%.
  • Hrein eign til greiðslu lífeyris var 208,9 milljarðar króna í árslok og lækkaði um 29,3 milljarða króna eða um 12,3% frá árslokum 2007.  
  • Fjárfestingartekjur voru neikvæðar um 34,2 milljarða króna.
  • Meðalraunávöxtun sjóðsins sl. 5 ár er 2,1% og sl. 10 ár 3,3,% en áætluð meðalraunávöxtun allra lífeyrissjóða er 1,5% fyrir 5 ár og 2,2% fyrir 10 ár.  
  • Skuldbindingar sjóðsins voru 13% hærri en eignir í lok árs 2008 samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt.

Samþykkt var að lækka áunnin réttindi um 10%. Samt sem áður hafa lífeyrisréttindi sjóðfélaga aukist um tæplega 6% umfram vísitöluhækkanir frá árinu 2006 en lífeyrisgreiðslur eru verðtryggðar m.v. vísitölu neysluverðs. Þá ber þess að geta að frá ársbyrjun 2006 til mars 2009 hafa lífeyrisgreiðslur hækkað um 40% þegar tekið hefur verið tillit til 10% lækkunar. Launavísitala hækkaði um 26% á sama tímabili.

Iðgjöld til sjóðsins á árinu 2008 voru 11,4 milljarðar króna og hækkuðu um um 12% frá fyrra ári.

Lífeyrisgreiðslur námu 6,7 milljörðum króna og hækkuðu um 14,8%.

Eignir sjóðsins skiptust þannig í lok árs 2008 að 56% voru í innlendum skuldabréfum, 2% í

innlendum hlutabréfum, 10% í innlánum og 32% í erlendum verðbréfum.

Alls 45.185 einstaklingar greiddu iðgjöld til Gildis árið 2008.


Miklir erfiðleikar á fjármálamörkuðum hérlendis og erlendis höfðu mikil áhrif á afkomu sjóðsins. Fall íslensku viðskiptabankanna í október 2008 vó þar þyngst en í kjölfarið lentu einnig mörg fyrirtæki í erfiðleikum. Erlendir hlutabréfamarkaðir  voru óhagstæðir á árinu 2008 og lækkaði heimsvísitala hlutabréfa (MSCI) um 40,7%.  Þróun á erlendum verðbréfamörkuðum, það sem af er árinu 2009, hefur einnig verið sjóðnum óhagstæð. Verðbréf hafa haldið áfram að lækka í verði á sama tíma og gengi erlendra gjaldmiðla hefur lækkað gagnvart íslensku krónunni.

 

Á ársfundinum var rætt ítarlega um afkomu sjóðsins og fundarmenn lýstu  áhyggjum sínum af stöðu hans og stöðunni á fjármálamörkuðum. Mikill einhugur ríkti hins vegar við afgreiðslu mála og voru allar tillögur, sem lagðar voru fyrir fundinn til afgreiðslu, samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða fulltrúa á fundinum: breytingar á samþykktum, tillaga um lækkun réttinda og varðandi stjórnarkjör.