Framtakssjóður Íslands skilaði 2.540 milljónum króna í hagnað á fyrstu 6 mánuðum ársins 2011. Hagnaðurinn skýrist af hækkun markaðsverðs eignarhlutar sjóðsins í Icelandair Group. Eigið fé sjóðsins við lok tímabilsins nam 20,9 milljörðum króna. Í ársbyrjun 2011 var eignarhlutur Framtakssjóðs í Icelandair Group eina hlutabréfaeign félagsins. Í janúar 2011 bættust eignarhlutir í Icelandic Group, Skýrr, Vodafone, Húsasmiðjunni og Plastprenti í eignasafn Framtakssjóðsins. Eignarhlutir í óskráðum félögum í eigu Framtakssjóðsins eru færðir á kostnaðarverði í bókum sjóðsins.
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands segir:
„Góð afkoma Framtakssjóðsins á fyrstu 6 mánuðum ársins skýrist af þeim árangri sem náðist í rekstri Icelandair á tímabilinu. Starfsemi sjóðsins mótaðist að verulegu leyti af áframhaldandi uppbyggingu eignasafnsins en 5 fyrirtæki bættust í eignasafn sjóðsins í janúar 2011. Í byrjun júlí var svo tilkynnt um kaup sjóðsins á 40% eignarhlut í Promens. Fyrstu söluferlin eru komin af stað þar sem eignir sjóðsins og dótturfélaga eru boðin áhugasömum fjárfestum til
kaups. Síðastliðinn föstudag var lokið við sölu á eignum Icelandic Group í Frakklandi og Þýskalandi en reksturinn þar hefur verið erfiður og eignirnar mjög skuldsettar. Þá stendur yfir söluferli á starfsemi Icelandic í Bandaríkjunum og Kína og er mikill áhugi á þeim eignum. Verkefnið framundan er fyrst og fremst að halda áfram að þróa eignasafnið og vinna náið með stjórnendum og starfsfólki fyrirtækja í eigu sjóðsins að því að ná hámarksárangri í rekstri félaganna. “