„Að byggja nýjan spítala frá grunni annars staðar er þrefalt dýrara en að fara þá leið sem fyrirhuguð er við Hringbraut, það er að byggja ný hús en nýta það sem nýtanlegt er af núverandi húsnæði. Ég skil bara ekki þessa umræðu um nýjan stað fyrir spítalann!“ varð Jóhannesi M. Gunnarssyni, læknisfræðilegum verkefnastjóra nýs Landsspítala , að orði í pallborðsumræðum á málþingi um Landspítalamálið í húsi Íslenskrar erfðagreiningar á laugardaginn var, 12. desember.
Aðstandendur ráðstefnunnar kynntu viðfangsefni samkomunnar sem „Nýr Landspítali; hvar, hvernig og fyrir hverja?“ og völdu frummælendur sem nálguðust viðfangsefnið úr mörgum og ólíkum áttum.
Um 60 manns sóttu málþingið sem stóð frá kl. 10:00 til 15:30.
Ákvörðun hefur þegar verið tekin!
Sjálf staðsetning nýs Landspítala við Hringbraut sætti gagnrýni á dögunum í Morgunblaðsgrein tveggja úr hópi aðstandenda málþingsins, Gests Ólafssonar og Árna Gunnarssonar. Spurningamerki við staðarvalið var enda býsna áberandi í ræðum nokkurra frummælenda á málþinginu en Hringbrautarstaðsetningin átti sér líka talsmenn í hópi framsögumanna: Sigurð Guðmundsson, forseta heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, og Jóhannes M. Gunnarsson, fulltrúa verkefnisstjórnar Nýs Landspítala.
Þá ber að nefna innlegg Ólafar Örvarsdóttur, skipulagsstjóra Reykjavíkur. Hún sagði fullum fetum að ákvörðun hefði þegar verið tekin um að nýr Landspítali risi við Hringbraut, gert hefði verið ráð fyrir uppbyggingu spítalans á svæðinu um árabil í aðalskipulagi og borgaryfirvöld styddu þau áform.
Skipulagsstjórinn benti annars vegar á nándina við háskólasamfélagið og hins vegar samspil við miðborgina sem rök fyrir því að halda fast við Hringbrautarsvæðið sem vettvang Landspítalastarfseminnar hér eftir sem hingað til.
Er árið 2007ekki enn ekki horfið í aldanna skaut?
Umræðurnar á málþinginu voru býsna fróðlegar og skýrðu margt, einkum þó tvennt. Annars vegar kom mjög vel og sannfærandi til skila hve mikilvægt er fyrir bæði Landspítala og Háskóla Íslands að nýi spítalinn rísi þar sem honum er ætlað að rísa, í grennd við Háskólann og verðandi þekkingarþorp í Vatnsmýrinni. Hins vegar verður að segjast að efnahagslegur veruleiki íslenska þjóðarbúsins virðist ekki trufla sérlega mikið þá sem mæla fyrir því að reisa nýjan Landspítala af grunni einhvers staðar annars staðar, til dæmis við Vífilstaði eða á Keldum.
Sumar hugmyndirnar, sem viðraðar voru á málþinginu, hefðu sómt sér betur Anno Domini Nostri Iesu Christi 2007 og hljóta að flokkast undir skýjaborgir á tímum efnahagsþrenginga. Sigurður Guðmundsson benti á í pallborðsumræðum að samvinna Háskólans og Landspítalans ætti sér stað á mun fleiri sviðum. Þetta samstarf varðaði líka í vaxandi mæli verkfræði, líffræði og jafnvel sagnfræði, svo dæmi væru tekin. Fleiri læknar tóku til máls, starfsmenn bæði Háskólans og Landspítala, og lýstu því hvaða áhrif það gæti haft á samstarfið ef margir kílómetrar skildu að samfélög spítalans og Háskólans.
Sigurður benti reynar á að ef spítalinn færi annað fylgdu heilbrigðisdeildir Háskólans honum og þar með myndi Háskólinn „klofna“ í ákveðnum skilningi. Læknarnir færðu rök fyrir nauðsyn þess að ráðast í framkvæmdir við nýjan Landspítala sem fyrst og gagnrýndu að nú væri verið að stofna til umræðna um staðsetningu spítalans. Páll Torfi Önundarson prófessor sagði að staðsetninguna hefði átt að útkljá árið 2002, nú tími þeirrar umræðu liðinn. Hann bætti við: „Við höfum beðið í níu ár eftir því að eitthvað færi að gerast í spítalamálinu og ef á að breyta staðsetningunni lengist biðin um áratugi.“
Lífeyrissjóðir kaupi mannvirki og lóðir Landspítalans.
G. Oddur Víðisson arkitekt var sá frumælandi á málþinginu sem skýrast mælti fyrir nýjum stað fyrir nýjan Landspítala og taldi of mikið gert úr ávinningi vegna nálægðar Landspítalalóðar og Háskóla Íslands. Rökrétt væri að finna spítalanum annan stað, enda væri lóðin við Hringbraut vetur nýtt til annarra verkefna. Hann benti á Keldur í því sambandi. G. Oddur fagnaði aðkomu lífeyrissjóða að viljayfirlýsingu um nýjan Landspítala en kallaði jafnframt eftir því að lífeyrissjóðirnir „krefðust þess sem fjárfestar“ að fara fram á endurskoðun staðsetningar spítalabyggingarinnar, „þar sem það er skiljanlegt sjónarmið að lífeyrissjóðirnir vilji fjárfesta í heildstæðu nútímamannvirki þar sem forsögn og þarfagreining hæfa nútíma spítala sem ætlað er að þjóna sjúklingum um langan tíma.“
G. Oddur taldi það jafnframt “eðlilega kröfu“ að ríkið færi fram á að lífeyrissjóðir keyptu mannvirki og lóðir Landspítalans við Hringbraut og í Fossvogi: „Það verður að teljast ákjósanlegur kostur fyrir lífeyrissjóði að kanna kaup á landssvæði Landspítala samhliða uppbyggingu spítala á nýjum stað. Lífeyrissjóðirnir myndu þá standa að þróun og uppbyggingu á þessu landssvæði og lóðum. Þessir tímar nú, þrátt fyrir allt, fela í sér tækifæri fyrir báða aðila og í reynd landsmenn alla. Ég tel þessi tímamót ákjósanleg til skoðanaskipta um þessi mál og hvet til þess að málefni uppbyggingar Landspítala verði skoðuð með nýju hugarfari.“ ·
Neðanmálsnóta til upplýsingar:
Lífeyrissjóðirnir hafa ekki tekið þátt í opinberri umræðu um staðsetningu nýs Landspítala og munu ekki gera. Þeir líta svo á að staðsetningin hafi þegar verið ákveðin og málið sé því útrætt, enda er viljayfirlýsing lífeyrissjóða og heilbrigðisráðherra miðuð við uppbyggingu á lóðinni við Hringbraut.
Texti og myndir: -ARH