Lífeyrissjóðir sýna innviðafjárfestingum mikinn áhuga en lítið sem ekkert gerist

„Forystusveitir lífeyrissjóða eru og hafa verið opnar fyrir því að koma að innviðauppbyggingu samfélagsins. Þannig mætti ná því samtímis að flýta nauðsynlegum, samfélagslegum verkefnum og ávaxta jafnframt eignir sjóðfélaga. Nærtækt er að benda á framkvæmdir í samgöngukerfinu, eins og reyndar dæmi eru um nú þegar. Verkefni af þessu tagi væri líka auðvelt að finna víðar.“

Þetta kom fram í skýrslu stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða sem Hilmar Harðarson stjórnarformaður flutti á aðalfundi samtakanna sem haldinn var í gær, 24. maí. Innviðafjárfestingar voru svo aðalumræðuefnið á hádegisfundi að loknum aðalfundarstörfum. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs og formaður nefndar Landssamtaka lífeyrissjóða um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða, flutti þar yfirgripsmikið erindi og sagði efnislega meðal annars:

„Sorgleg staðreynd er að undanfarin sjö ár hafa lífeyrissjóðir haldið úti öflugum sjóði til innviðafjárfestinga og viðrað áhuga á að taka þátt í slíkum verkefnum. Lítið sem ekkert gerist. Það rifjaðist upp fyrir mér að Hrafn Magnússon, þáverandi framkvæmdastjóri LL, fékk mig til að ræða um þetta sama dagskrárefni á fundi hjá samtökunum árið 2003. Mér reiknaðist þá til að hlutur lífeyrissjóða í innviðum landsmanna væri innan við 1% og nú, tæplega tveimur áratugum síðar, er hann enn um 1%!“

Ávöxtun langt umfram 3,5% viðmið

Skipan aðalstjórnar og varastjórnar er óbreytt eftir aðalfundinn. Verkefni forystusveitarinnar skortir ekki næstu mánuði og misseri, svo mikið er víst.
Hilmar Harðarson sá ástæðu til að fagna „þremur góðum ávöxtunarárum lífeyrissjóðanna, 2019-2021“. Raunávöxtun eigna sjóðanna var að jafnaði 10,2% og fimm ára meðalávöxtun er 7,7%, langt umfram 3,5% ávöxtunarviðmiðið.

Stjórnarformaðurinn nefndi nokkra þætti sem á dagskrá samtakanna eru:

  • Vinna við svokallaða grænbók um lífeyrismál.
  • Stjórnarfrumvarp sem tengist kjarasamningum á almennum vinnumarkaði frá 3. apríl 2019 og varðar hækkun lögbundins iðgjalds úr 12% í 15,5% og lögfestingu þess að sjóðfélagar geti ráðstaðað iðgjaldsaukanum, 3,5%, í tilgreinda séreign.
  • Kröfur um að „þak“ erlendra fjárfestinga lífeyrissjóða verði hækkað úr 50% í 65% á mun skemmri tíma en stjórnvöld gera ráð fyrir.
  • Grænar, sjálfbærar og ábyrgar fjárfestingar eru og verða mál málanna í samræmi við viljayfirlýsingar lífeyrissjóða þar að lútandi.
  • Lífeyrisgáttinni verði breytt og hún bætt með því að gera sjóðfélögum mögulegt að nálgast líka upplýsingar um séreign og viðbótarlífeyrissparnað.

Loftslag og lífslíkur

Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri kynnti ársreikning 2021 og fjárhagsáætlun 2022. Í inngangi að þeirri kynningu vék hún að loftlagsvánni og auknum lífslíkum Íslendinga, hvoru tveggja stórmálum og viðfangsefni lífeyrissjóða:

„Jafnvel þótt Ísland sé eyja þá erum við ekkert eyland. Fyrir liggur að allar heimsins þjóðir þurfa að taka höndum saman þegar kemur að loftslagsmálum. Íslenskir lífeyrissjóðir taka ábyrgð sína alvarlega og má sterkt finna að stjórnir og starfsmenn lífeyrissjóða reyna eftir fremsta megni að fræðast og marka jákvæða stefnu til sjálfbærni. Þetta verkefni er gríðarlega umfangsmikið og þurfa allir að taka höndum saman til að ná árangri.LL stóðu fyrir málþingi á starfsárinu í samstarfi við Seðlabanka Íslands þar sem yfirskriftin var Sjálfbærnivegferð lífeyrissjóða. Mikilvægt er að við berum saman bækur okkar og mörkum stefnu til að ná árangri. Framtíðarkynslóðir eiga það undir okkur komið hvernig til mun takast.Við erum nú að uppskera fyrir það sem fyrri kynslóðir gerðu, það var að marka skýra framtíðarsýn fyrir íslenska lífeyrissjóðakerfið. Uppbygging öflugs og sjálfbærs lífeyriskerfis tekur áratugi. Árið 1969 voru það aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld sem settu skýra framtíðarstefnu til að byggja hér upp öflugt lífeyriskerfi.Ísland tók á árinu 2021 í fyrsta skipti þátt í lífeyrisvísitölu Mercer. Þar er um að ræða alþjóðlegan samanburð lífeyriskerfa og varð Íslands efst á þeim lista og fékk A í einkunn. Einnig náðu Holland og Danmörk þeim árangri og fengu jafnframt A. Þessi góða niðurstaða er okkur til sóma og hana megum við þakka forverum okkar. Við megum þó ekki slá slöku við og sofna á verðinum á þeirri forsendu að hér sé allt í blóma. Nei, kerfið er gott en ekki gallalaust!Ýmis brýn verkefni eru í vinnslu eða bíða okkar í náinni framtíð. Mikil vinna hefur átt sér stað vegna innleiðingar á breyttri aðferðarfræði er tengist auknum lífslíkum. Málið hefur fengið ítarlega rýni og hafa nokkrir sjóðir þegar ákveðið með hvaða hætti þeir hyggist aðlaga þessar breytingar að réttindum sinna sjóðfélaga. Aðrir eru enn að ígrunda hvaða leið verði farin en mikilvægt er að vanda til verka og gæta að jafnræði sjóðfélaga.“

Tengsl við háskólasamfélagið

Stefán Halldórsson, verkefnisstjóri LL, fjallaði á aðalfundinum um fyrirliggjandi drög að stefnu samtakanna um rannsóknir og greiningu og samstarf LL við háskólasamfélagið. Efnislega kom fram í máli hans um verkefnin framundan:

    • Unnið er að undirbúningi að aðkomu LL að grænbók um lífeyrismál og við sérstakt reiknilíkan til að greina betur áhrif breytinga í lífeyriskerfinu.
    • Tengsl við innlenda og erlenda fræðimenn á sviði lífeyrismála verða sköpuð og styrkt. Drög liggja fyrir að samstarfi við hagfræðideild Háskóla Íslands og sú deild hefur góð tengsl við dönsku lífeyrisrannsóknastofnunina PeRCent í Copenhagen Business School.
    • Stefnt er að því að efna árlega til ráðstefnu LL um rannsóknir, niðurstöður og ný viðfangsefni og þegar er ákveðið að fyrsta ráðstefnan í þeim dúr verði 13. október 2022. Meginþemað verður samanburður á lífeyriskerfum Íslands, Hollands og Danmerkur.
    • Einn af fyrirlesurum á ráðstefnunni verður dr. Bastian Staarink frá Tilburg University í Hollandi. Sá kemur reyndar til Íslands nú í sumar til að stúdera íslenska lífeyriskerfið, einkum það fyrirkomulag að sjálfstætt starfandi á Íslandi greiði í lífeyrissjóði undir árvökulu auka Skattsins. Þetta heyrðu Hollendingar um í fréttum ytra af Mercer-samanburðarvísitölunni og þótti afar merkilegt því í Hollandi geta sjálfstætt starfandi komið sér hjá því að greiða í lífeyrissjóði ef þeir svo kjósa.
    • Síðast en ekki síst má nefna að LL vill styðja háskólafólk sem velur meistara- og doktorsverkefni á sviði lífeyrismála. Markmiðið er að fjölga þeim sem stunda rannsóknir að þessi leyti. „Þar geta orðið til góðir liðsmenn lífeyriskerfisins,“ mælti Stefán Halldórsson.

 

Orkugeirinn mjög áhugaverður

Ólafur Sigurðsson ræddi sem sagt um innviðafjársendingar í hádegiserindi að loknum aðalfundi LL og boðaði skýrslu innan tíðar frá nefnd um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða sem hann er í forystu fyrir. Hann vísaði til þeirrar niðurstöðu Samtaka iðnaðarins að uppsöfnuð viðhaldsþörf í innviðum hérlendis næmi 420 milljörðum króna, sem jafngilti 14,5% af landsframleiðslu þegar skýrsla SI var birt. Langstærsti hlutinn er í samgöngukerfinu (vegum og mannvirkjum þeim tengdum) og í fráveitum. Þetta eru einungis viðhaldsverkefni en ekki nýframkvæmdir og mun stærra dæmi en stjórnvöld ráða ein við.

„Innviðir samfélagsins eru mikilvægir fyrir hagvöxt, nýsköpun og framleiðniþróun. Við getum látið gott af okkur leiða í þessum efnum en hagnast jafnframt á því. Hver ríkisstjórnin tekur við af annarri en ekkert gerist. Samt hefur OECD beinlínis hvatt þjóðríkin til þess að fá einkafjármagn í innviðafjárfestingar.“

Ólafur fékk spurningu úr sal um hvert hann sjálfur myndi horfa ef hann hefði öll kort á hendi og gæti ráðið ferðinni. Hann svaraði því til að orkugeirinn væri mjög áhugaverður, fjarskiptamarkaðurinn sömuleiðis og samgöngumannvirki með veggjöldum.

 

Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða 

                            

Myndir frá aðalfundinum