Ábyrgðasjóður launa taki á sig ábyrgð vangreiddra iðgjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar.

Á Alþingi liggur nú frumvarp, sem felur í sér heildarendurskoðun á lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.    Eitt af helstu nýmælum frumvarpsins er að lagt er til að Ábyrgðasjóður launa taki á sig ábyrgð á vangreiddum iðgjöldum sem nemur allt að 4% af iðgjaldsstofni á grundvelli samnings um viðbótartryggingavernd umfram lágmarksiðgjald samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyris sjóða. Stefnt er að samþykki frumvarpsins fyrir þinglok.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra hefur fjöldi samninga um viðbótarlífeyrissparnað farið stigvaxandi frá gildistöku lífeyrissjóðalaganna á árinu 1998 en einnig hefur verið samið um slíkan sparnað í almennum kjarasamningum. Eðlilegt þótti í ljósi þeirrar þróunar að Ábyrgðasjóður launa stuðli einnig að vernd þessara réttinda.

 Í gildandi lögum er kveðið á um að ábyrgð sjóðsins miðist við lágmarkstryggingavernd skv. lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Það þýðir að samningar launamanna og vinnuveitanda um viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum nr. 129/1997 njóta nú ekki ábyrgðar sjóðsins.

Með frumvarpinu er sem sagt lagt til að kröfur launamanna á grundvelli slíkra samninga geti notið ábyrgðar sjóðsins. Í reglugerð um ráðstöfun iðgjalds til lífeyrissparnaðar og viðbótar tryggingavernd,er viðbótartryggingavernd skilgreind sem sú tryggingavernd sem er umfram þá lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður skilgreinir og greitt er fyrir með greiðslu iðgjalds samkvæmt sérstökum samningi.

Samkvæmt þessum reglum er launamönnum heimilt að gera samning um tryggingavernd á grundvelli iðgjalda sem þeir hafa beinan ráðstöfunar rétt yfir. Er launagreiðanda skylt, að beiðni launamanns, að draga umsamið iðgjald af launum og skila því til viðkomandi vörsluaðila.

 Svo dæmi sé tekið er í kjarasamningi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins sem undirritaður var í maí 2000 kveðið á um að í þeim tilvikum sem starfsmaður leggur til viðbótarframlag í séreignarsjóð skuli vinnuveitandi greiða framlag á móti. Segir í ákvæði þessu að frá 1. maí 2000 skuli mótframlag vinnuveitanda vera 1% gegn 2% framlagi starfsmanns en frá 1. janúar 2002 skuli mótframlagið nema 2% gegn 2% framlagi starfs manns. Jafnframt er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ábyrgð sjóðsins taki til viðbótarlífeyrisskuldbindinga sem samið hefur verið um í almennum kjarasamningum.

 Samhliða ákvæðum um frjálsan viðbótarsparnað er nú í kjarasamningi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnu lífsins kveðið á um 1% framlag vinnuveitanda vegna viðbótarsparnaðar í þeim tilvikum þegar launamaður hefur ekki gert samning við vörsluaðila um viðbótarlífeyrissparnað. Í frumvarpinu lagt til að ábyrgð sjóðsins á vangoldnum iðgjöldum vegna viðbótarlífeyrissparnaðar geti numið allt að 4% af iðgjaldsstofni.

 Algengt er að framlag launþega til lífeyrissparnaðar sé allt að 4%, en til viðbótar komi 2% framlag vinnuveitenda og 0,4% framlag ríkisins í formi lægri tryggingargjalda. Samtals getur því heildariðgjaldið numið 6,4%. Ábyrgðasjóður launa mun hins vegar eingöngu ábyrgjast allt að 4% iðgjald til viðbótarlífeyrissparnaðarins, þ.e. ef umrætt frumvarp nær fram að ganga á Alþingi óbreytt.