44 aðilar í hæfismat hjá Fjármálaeftirlitinu.

Samtals 44 aðilar úr íslenskum fjármálaheimi hafa farið í gegnum hæfismat Fjármálaeftirlitsins (FME) frá því í nóvember 2005 en þá hóf FME að prófa alla nýja framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og vátryggingafélaga, auk vátryggingamiðlara. Áður hafði FME eingöngu framkvæmt slíkt mat á vátryggingamarkaði. Jafnframt er slíkt mat framkvæmt við veitingu nýrra starfsleyfa og eftir atvikum við breytingar á þegar veittum starfsleyfum.

Ríkar kröfur eru gerðar til hæfis framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga og lífeyrissjóða. Bæði er um að ræða kröfur er lúta að trúverðugleika þessara aðila auk krafna um faglegt hæfi viðkomandi, þ.e. að menntun, starfsreynsla og starfsferill viðkomandi sé með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt.  

Nú rúmu einu og hálfu ári síðar eða frá því að FME tók upp ofangreint hæfismat hafa samtals 44 aðilar af öllum sviðum fjármálamarkaðarins verið teknir í hæfismat. Um það bil fimmti hver aðili þarf að endurtaka matið. Ekki er gert ráð fyrir fleiri en tveimur tilraunum að jafnaði.