40 ár frá undirritun samkomulags um stofnun lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði.

Í dag, 19. maí 2009, eru liðin nákvæmlega 40 ár frá því að Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands undirrituð samkomulag um stofnun lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði. Þar með urðu allir launþegar innan verkalýðsfélaga á samningssviði ASÍ sjóðfélagar  frá og með 1. janúar 1970. 
Oft hefur verið talað um að sú ákvörðun aðila vinnumarkaðarins í kjarasamningum 1969 að setja á stofn lífeyrissjóði með almennri þátttöku launþega og fullri sjóðsöfnun, hafi verið best heppnaða efnahagsaðgerð á Íslandi á seinni hluta síðustu aldar. Það er þó nokkuð til í þeirri fullyrðingu, a.m.k. telja aðrar þjóðir að fyrirmyndanna sé að leita til Íslands, þegar kemur að uppbyggingu lífeyrismála í þeirra eigin landi. Íslendingar búa við þriggja stoða lífeyriskerfi, sem Alþjóðbankinn hefur lagt til að þjóðir taki upp sem fyrirmynd að góðu lífeyriskerfi


Hvarvetna í heiminum vekur íslenska lífeyrissjóðakerfið athygli og aðdáun og margar

þjóðir sem eru að reyna að leysa lífeyrismál sín líta öfundaraugum til Íslands. Hvers vegna

hefur svona vel tekist til hér á Íslandi að byggja upp gott lífeyrissjóðakerfi?

 

Ástæðurnar eru margar en þessar þó helstar:


Í fyrsta lagi lánaðist okkur að koma því þannig fyrir, fyrst með kjarasamningum aðila

vinnumarkaðarins og síðar með löggjöf, að allir starfandi mönnum ber skylda til að eiga aðild

að lífeyrissjóðum. Erlendis er þessi skylda með ýmsum hætti og algengt er að heilu

starfsstéttirnar standi utan lífeyrissjóðanna og víða geta atvinnurekendur og einstaklingar

komð sér undan því að vera þátttakendur í lífeyrissjóðakerfinu. Þá er algengt að launþegar

þurfi að greiða iðgjöld í lífeyrissjóði í fimm til tíu ár hið minnsta, áður en einhver

ellilífeyrisréttur stofnast og oft glatast lífeyrisréttindin, ef menn skipta um starf og hætta að

greiða til viðkomandi sjóðs, áður en kemur að töku ellilífeyris.


Í öðru lagi býr íslenska lífeyrissjóðakerfið við sjóðsöfnun. Öndvert við sjóðsöfnun er

gegnumstreymiskerfi, sem þýðir að iðgjöldin eru notuð beint til þess að greiða út lífeyri og

enginn eða tiltölulega lítil sjóðsöfnun á sér stað í kerfinu. Hér á Íslandi sparar hver kynslóð

fyrir sig með því að leggja til hliðar fjármuni í lífeyrissjóðina, sem síðan eru teknir út í formi

ellilífeyris. Fróðlegt er að gera sér grein fyrir því, hvernig íslenska lífeyrissjóðakerfið eflist ár

frá ári í samanburði við lífeyriskerfi nágrannalandanna.
Styrkur lífeyriskerfa er gjarnan
mældur sem hlutfall af landsframleiðslu. Heildareignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu eru meðal þeirra hæstu í heimi þrátt fyrir hrun fjármálakerfisins og gríðarlegra erfiðleika sem hafa fylgt í kjölfarið. Nú er áætlað er hreinar eignir íslensku lífeyrissjóðanna hafi numið 112% af vergri landsframleiðslu í árslok 2008 og hafi fallið úr 130% af sömu viðmiðum árið áður. Viðbúið er að þær þjóðir sem hafa toppað með Íslendingum í heildareignum í lífeyrissjóðakerfum hafi einnig orðið fyrir svipuðum áföllum.

Þeir fjármunir sem safnast hafa í lífeyrissjóðunum eru ekki aðeins ein af undirstöðum

félagslegs öryggis heldur eru þeir mikilvægt akkeri í hinni hröðu uppbyggingu íslensks

efnahagslífs og fjármálamarkaðar á síðasta áratug.


Í þriðja lagi er mikil samtryggning hjá lífeyrissjóðunum. Þannig greiða lífeyrissjóðirnir

ellilífeyri til æviloka, tryggja sjóðfélagann fyrir starfsorkumissi, ef hann missir starfsgetu sína

vegna slyss eða veikinda og ef sjóðfélaginn fellur frá er einnig er greiddur makalífeyrir til

þess að milda fjárhagslegt áfall fjölskyldunnar.

 

Ýmsar lýðfræðilegar ástæður eru okkur Íslendingum líka mjög hagstæðar.

Aldurssamsetning þjóðarinnar er okkur í hag, því þjóðin er tiltölulega ung og yngri en

þjóðirnar í kringum okkur. Það gefur okkur ákveðið svigrúm innan almannatryggingakerfisins

til að bregðast við þeirri þróun að sífellt færri vinnandi menn séu að baki hverjum

ellilífeyrisþega. Þá stunda Íslendingar launaða vinnu mun lengur en þekkist hjá öðrum

þjóðum, sem léttir mikið á lífeyriskerfinu.  Ekki má heldur gleyma viðbótarlífeyrissparnaðinum, sem eykst með hverju árinu sem líður. Samkomulag um samskipti lífeyrissjóðanna tryggja sjóðfélagana líka fyrir því að verða ekki fyrir réttindamissi, þó þeir skipti um starfsvettvang og fari á milli lífeyrissjóða.