Landssamtök lífeyrissjóða áætla að vegið meðaltal nafnávöxtunar lífeyrissjóðanna hafi verið um 5,1% á árinu 2010 en verðbólga á sama tímabili var 2,6%. Að meðaltali var hrein raunávöxtun því 2,5% á árinu 2010. Þetta kom fram á aðalfundi samtakanna í gær.
Arnar Sigurmundsson, stjórnarformaður LL, sagði í skýrslu stjórnar að raunávöxtun lífeyrissjóðanna árið 2010 hefði eðlilega verið nokkuð misjöfn, allt eftir samsetningu og ávöxtun eignaflokka. Í heildina megi greina mikla breytingu til batnaðar frá „hrunárinu“ 2008 þegar raunávöxtun lífeyrissjóða var neikvæð um 21,8% en hins vegar jákvæð um tæplega 0,4% árið 2009. Og nú var raunávöxtnin 2010 sem sagt 2,5%.
„Þetta eru mikil umskipti til hins betra en áhrif hrunsins birtast samt enn í ársreikningum sjóðanna fyrir 2010,“ sagði Arnar.
Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hækkuðu mikið á liðnu ári eftir miklu dýfu árið 2008. Bandaríska S&P500 hlutabréfavístalan hækkaði um rúm 15% í dollurum og heimsvísitala Morgan Stanley hækkaði um rúm 12% mælt í dollurum. Áhrifin af þessum hækkunum skila sér ekki með sama hætti í eignasafni sjóðanna vegna 11,6% styrkingar á gengi íslensku krónunnar á árinu 2010.
Fjölmennt á aðalfundinum
Fjölmenni sótti aðalfund Landssamtaka lífeyrissjóða á Grand hóteli og var sérstaklega eftir því tekið í ljósi náttúruhamfara á Suðurlandi, óveðurs á Norðurlandi og viðræðna um kjarasamninga sem margir í umhverfi lífeyrissjóða taka þátt í.
Sérstakir gestir aðalfundar voru Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, og Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Þeir fluttu afar áhugaverð erindi, sem fjallað verður síðar um hér á heimasíðunni, Páll fjallaði um horfur á verðbréfamarkaði en Friðrik Már um gjaldeyrishöftin og áhrif Icesave-málsins á stöðu mála nú.
Villandi umræða um lögbundna ávöxtun lífeyrissjóða
Til þess að lífeyrissjóðir geti staðið undir lífeyrisskuldbindingum sínum þarf árleg langtímaávöxtun þeirra að nema 3,5% umfram innlenda verðbólgu. Afkoma síðustu fimm ára er langt undir þeirri viðmiðun og munar þar mest um mjög neikvæða afkomu árið 2008. Fimm ára meðaltal raunávöxtunar sjóðanna 2006-2010 var neikvætt um 2,4% en 10 ára meðaltal áranna 2001-2010 var aftur á móti jákvætt um 1,6%.
Áföllin eftir bankahrunið leiddu til þess að nokkrir lífeyrissjóðir urðu að lækka lífeyrissréttindi og skerða lífeyrisgreiðslur. Þessir sömu sjóðir höfðu aukið réttindi sjóðfélaga umfram hækkun vísitölu þegar ávöxtun var hvað hæst á árunum 2003 til 2006.
Arnar Sigurmundsson sagði á aðalfundinum að frá september 2008 hefði vísitala fyrir lífeyrisgreiðslur sjóðanna hækkað um 18% en launavísitala hækkað um tæplega 10% á sama tímabili.
Umfjöllun um þörfina á 3,5% raunávöxtun lífeyrissjóðanna væri á tíðum villandi og oft sett í beint samhengi við raunávöxtun á innlendum skuldabréfum lífeyrissjóðanna. Og Arnar bætti við:
„Um er að ræða meðalraunávöxtun og getur ávöxtun ýmist verið meiri eða minni á einstökum eignaflokkum. Engu að síður er ljóst að erfitt getur verið að ná langtíma 3,5% meðalraunávöxtun á eignir sjóðanna. Sveiflur í efnahagslífinu og fjármálakreppur með falli í ávöxtun, samhliða eignarýrnun, dregur niður meðaltalið hvort sem miðað er við 5 eða 10 ár.“