Um síðustu áramót voru samanlagðar eignir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga (LH) 371,8 milljarðar króna og hækkuðu um 21,9 milljarða frá árinu á undan eða um 6,3%. Í árslok 2010 skiptust eignir þannig að hlutur A-deildar var 154,5 milljarðar króna, B-deildar 187 milljarðar króna, Séreignar LSR 8,6 milljarðar króna og eignir LH voru 21,7 milljarðar króna. Í árslok 2010 voru 60,2% af eignum sjóðanna í innlendum skuldabréfum, 33,2% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 1,6% í innlendum hlutabréfum, 4,6% í innlánum og 0,4% í öðrum fjárfestingum. Nafnávöxtun LSR var 4,9% á árinu 2010 sem svarar til 2,2% hreinnar raunávöxtuna. Árið áður var hrein raunávöxtun 2,9% og hefur sjóðurinn því skilað jákvæðri raunávöxtun undanfarin 2 ár þrátt fyrir erfitt umhverfi og takmarkaða fjárfestingarmöguleika.
Árið einkenndist af talsverðum sveiflum á erlendum mörkuðum og nam lækkunin fram að miðju ári um 10,5%. Markaðir tóku þá viðsnúning og hækkuðu um 24,9% til loka árs. Vegna styrkingar á gengi krónunnar lækkaði dollar um 7,9% gagnvart krónu. Heildaráhrif þessa eru því að þrátt fyrir ágætis raunávöxtun á erlenda hlutabréfasafninu lækkar hún tölvert þegar áhrifin vegna styrkingar krónunnar eru tekin með í reikninginn og nam hún 0,59%. Talsverðar hækkanir voru á innlenda hlutabréfasafninu og nam raunávöxtun þess 27,3% samanborið við 11,7% raunávöxtun íslensku Úrvalsvísitölunnar OMXI 6.
Talverðar lækkanir urðu á ávöxtunarkröfu innlenda skuldabréfamarkaðarins árið 2010. Nokkrar sveiflur voru þó innan ársins og fór ávöxtunarkrafa ríkistryggðra skuldabréfa í ein lægstu gildi sem sést hafa á innlendum markaði. Ávöxtunarkrafan hækkaði þó á nýjan leik seinni hluta ársins en lækkaði þegar horft er til ársins í heild. Mest lækkaði ávöxtunarkrafa skuldabréfa með stuttan líftíma og endurspeglaði það vel aðgerðir Seðlabankans sem lækkaði stýrivexti átta sinnum á árinu, úr 10% í 4,5%. Verðbólgan lækkaði hratt frá fyrra ári og mældist hún 2,6% samanborið við 8,6% árið 2009.