12,1% raunávöxtun hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna.

Ávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna nam 15,2% á árinu 2003 sem samsvarar 12,1% raunávöxtun samanborið við – 2,7% raunávöxtun á árinu 2002. Hrein raunávöxtun  síðustu fimm árin nam 4,1% og meðalraunávöxtun síðustu tíu árin er 5,9%. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er fyrsti lífeyrissjóðurinn sem tilkynnir uppgjör vegna síðasta árs.

Eignir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna námu 123,7 milljörðum króna í árslok og hækkuðu um 21,7 milljarða króna á árinu eða rúm 21%. Á árinu greiddu 42 þúsund sjóðfélagar til sjóðsins og námu iðgjaldagreiðslur 8.248 m.kr. sem er aukning um tæp 12%.

Fram kemur hjá sjóðnum að ávöxtunin sé nú sveiflukenndari samfara hækkandi hlutfalli innlendra og erlendra hlutabréfa í verðbréfasafninu. Til lengri tíma litið mun hærra hlutfall hlutabréfa skila sjóðnum betri raunávöxtun en ef eingöngu hefði verið fjárfest í skuldabréfum. Það má t.a.m. sjá af raunávöxtun innlendu hlutabréfa-eignarinnar á liðnum árum.

 

Ávöxtun skiptist þannig eftir verðbréfaflokkum:

Innlend hlutabréf: Raunávöxtun í fyrra var 47,1%. Árleg raunávöxtun innlendu hlutabréfaeignarinnar er 14,2% frá 1980 til árslok 2003.

Erlend hlutabréf: Ávöxtun í dollurum var 30,3% á árinu 2003. Á móti styrktist íslenska krónan á árinu gagnvart erlendum gjaldmiðlum um 1,2%.

Skuldabréf: Raunávöxtun var 6,7% á liðnu ári samanborið við 5,9% á árinu 2002.

 

Tryggingafræðileg úttekt sem miðast við árslok 2003 sýnir að skuldbindingar nema 6,8% umfram eignir.Eignir umfram áfallnar skuldbindingar nema 15,2%.

 

Eignir séreignardeildarinnar námu 1.922 m.kr. sem er hækkun um 80% frá fyrra ári. Í árslok 2003 áttu 25.499 einstaklingar inneignir í séreignardeildinni. Ávöxtun á árinu var 15,2% sem samsvarar 12,1% raunávöxtun.

 

Á árinu 2003 nutu 6.586 lífeyrisþegar lífeyrisgreiðslna að fjárhæð 2.351 m.kr. samanborið við 2.095 m.kr. árið áður sem er um 12% hækkun.

 

Ársfundur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna verður haldinn mánudaginn 17. maí n.k. kl. 17.00 í Gullteigi á Grand Hótel.