Yfirtökunefnd Kauphallarinnar tekur til starfa.

Kauphöll Íslands hefur ákveðið að stofna Yfirtökunefnd til að fjalla um yfirtökuskyldu á hlutabréfamarkaði.  Markmiðið með stofnun nefndarinnar er að efla hlutabréfamarkað með því að greiða eftir því sem við verður komið úr álitaefnum sem snerta yfirtökur. Slíkum álitaefnum hefur fjölgað talsvert síðastliðin ár eftir því sem hlutabréfamarkaðurinn hefur vaxið.

 

Fyrirmynd að nefndinni er að hluta sótt til Bretlands en löng hefð er fyrir starfsrækslu yfirtökunefndar þar í landi eða allt frá árinu 1968. Nefndin mun birta yfirlýsingar, veita ráðgjöf og stuðla að faglegri umræðu um yfirtökur og tengd mál. Nefndin starfar sjálfstætt og koma stofnaðilar í engu að störfum hennar. Það verður því algerlega í höndum nefndarinnar að móta verklag og starfsreglur á grunni markmiðsins með stofnun hennar.

Í nánari atriðum er hlutverk Yfirtökunefndar að taka til umfjöllunar hvort til yfirtökuskyldu hafi stofnast í tilteknum tilvikum á grundvelli VI. kafla laga um verðbréfaviðskipti sem tóku gildi 1. júlí nk. Nefndin hefur ekki stoð í lögum og

störf hennar eru óháð Fjármálaeftirlitinu. Nefndin mun einnig fara yfir hvort tilboðsyfirlit byggi á réttum forsendum, stuðla að bestu framkvæmd í viðskiptum með hlutabréf sem kynnu að fela í sér yfirtökuskyldu og standa fyrir umræðu um eignarhald hlutabréfa sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi. Yfirtökunefnd mun einnig birta yfirlýsingar við meðferð yfirtökumála eftir því sem við á að mati hennar. Yfirlýsingar og álit nefndarinnar hafa ekki lagalegt gildi en stofnaðilar vonast til þess að aðilar muni virða niðurstöður nefndarinnar og haga málum í samræmi við þær. Áhersla verður lögð á að nefndin vinni hratt og örugglega og kynni niðurstöður sínar fljótt.

 

Að stofnun Yfirtökunefndar standa Kauphöll Íslands hf., Eignarhaldsfélag hlutafélaga ehf. (félag skráðra hlutafélaga), Fjármálaeftirlitið, Eignarhaldsfélag lífeyrissjóða um verðbréfaþing ehf., Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, Samtök fjárfesta, Seðlabanki Íslands, Verslunarráð Íslands og viðskiptaráðuneytið. Stofnsamningurinn um starf nefndarinnar er til þriggja ára. Ákvörðun um framhaldið verður tekin í ljósi reynslunnar af störfum hennar.

 

Yfirtökunefndin er þriggja manna nefnd og hana skipa Viðar Már Matthíasson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, sem verður formaður nefndarinnar, Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, varaformaður og Magnús Gunnarsson, stjórnarformaður Capital hf.

Varamenn eru Erna Bryndís Halldórsdóttir, löggiltur endurskoðandi, Jóhannes Sigurðsson, prófessor við Háskóla Reykjavíkur og Ólafur Nilsson löggiltur endurskoðandi. Nefndin hefur aðsetur í Kauphöll Íslands sem jafnframt leggur henni til starfsmann. Starfsmaður nefndarinnar er Árnína Steinunn Kristjánsdóttir, lögfræðingur.

Stofnsamning um Yfirtökunefnd má kynna sér á heimasíðu Kauphallarinnar, www.icex.is.