Yfirlýsing stjórnar Lífeyrissjóðsins Hlífar.

Stjórn Lífeyrissjóðsins Hlífar hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna mikillar umfjöllunar fjölmiðla um meint fjármálalegt misferli eins sjóðsstjóra Kaupþings. Í yfirlýsingunni kemur fram á þessu stigi bendi ekkert til þess að sjóðurinn hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni.

Yfirlýsing stjórnar Lífeyrissjóðsins Hlífar er svohljóðandi: "Vegna mikillar umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarna daga um meint fjármálalegt misferli eins sjóðsstjóra Kaupþings, sem tengist fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðsins Hlífar, óskar stjórn sjóðsins þess að eftirfarandi atriði komi fram. Þegar umrætt mál kom fyrst fram í dagsljósið var framkvæmdastjóra sjóðsins þegar vikið úr starfi. Mál hans er nú í opinberri rannsókn hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra. Frá því að málið kom upp hefur stjórn lífeyrissjóðsins farið yfir reikninga og bókhald sjóðsins. Á þessu stigi bendir ekkert til þess að sjóðurinn hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Stjórnin hefur ráðið endurskoðendur frá PriceWaterhouseCoopers til að fara yfir starfsemi lífeyrissjóðsins tvö ár aftur í tímann. PriceWaterhouseCoopers hefur ekki áður komið að málefnum Lífeyrissjóðsins Hlífar, en mun að lokinni rannsókn skila ítarlegri skýrslu til stjórnarinnar. Stjórn lífeyrissjóðsins vill undirstrika að ekkert er hægt að fullyrða um niðurstöður rannsóknarinnar fyrr en að lokinni endurskoðun og lögreglurannsókn. Þegar niðurstöður liggja fyrir mun stjórnin gera opinberlega grein fyrir þeim."