Vinnutengd heilbrigðisþjónusta lengir starfsævina

FINNLAND – Hægt er að lengja starfsævina um heilt ár ef áhrifarík vinnutengd heilbrigðisþjónusta er fyrir hendi á öllum vinnustöðum, segir í tilkynningu frá finnska alþýðusambandinu (SAK).
Luri Lyly, formaður SAK, segir samtökin hafa sett fram tillögu um hvernig hægt sé að lengja starfsævi í framhaldi af almennum rökræðum um hækkun á eftirlaunaaldri. „Við verðum að tryggja að fólk geti tekist á við vinnuna sína á öllum aldursskeiðum. Markmiðið er að fólk sé hraust og heilbrigt þegar það nær eftirlaunaaldri.“

Verkalýðssamtökin birtu nýlega tillögu sína að „aldursáætlun“ sem miðar að því að lengja starfsskeiðið en viðurkenna jafnframt ýmsar sérþarfir eldri starfsmanna, til að mynda með möguleikum á tilgreindum fjarvistum frá vinnu, hlutastarfi eða sveigjanlegum vinnutíma.

SAK bendir á að grípa verði til sérstakra ráðstafana snemma á starfsferli fólks ef það eigi að vera lengur á vinnumarkaði og að tryggja vinnutengda heilbrigðisþjónustu með forvarnir að markmiði.  

Samtökin gera ráð fyrir að Finnar á vinnumarkaði geti að jafnaði unnið einu ári lengur en nú hafi þeir aðgang að skilvirkri, vinnutengdri heilsugæslu. Þrátt fyrir að finnsk lög kveði nú þegar á um slíkt njóta einungis 20% vinnufærra manna í Finnlandi vinnutengdrar heilbrigðisþjónustu.

Af fréttavefnum IPE.com, 8. júní 2009